Espergærde. Hinn sanni aðdáandi.

Hvernig lítur heimurinn út núna? hugsaði ég þegar ég vaknaði. Klukkan var 6:25. Það sá ég á úrinu mínu. Í svefnherberginu eru þykkar gardínur sem hleypa sennilega bara engu ljósi í gegn og því var heimurinn dimmur þegar ég horfði nývaknaður í kringum mig. Ég fór á fætur, gekk út að glugganum, dró gardínurnar frá og sá þennan fína morgunroða við sjóndeildarhringinn. (Í bókinni sem ég las síðast var lokasenan svolítið sérkennileg því aðalpersónan ruglaði saman morgunroða og eldsvoða (það logaði glatt í hennar eigin húsi)). En svona leit heimurinn út; út við sjóndeildarhring logaði himinninn, í kringum mig var alger þögn, ekki tíst í fugli, mjálm í ketti og enginn ræsti bíl sinn. Það virðist ekkert alvarlegt hafa gerst í nótt, hugsaði ég. Þessi dagur verður líkur gærdeginum.

Ég fór í hlaupatreyjuna mína (fótboltalandsliðsbúningur Tíbet). Hún er köld og ég var viss um að fyrir utan gluggann væri kalt. Ég hleyp mér til hita, hugsaði ég. Ég klæddi mig í gráu stuttbuxurnar sem ég fann í körfu þar sem ég geymi íþróttadótið mitt. Ég leit niður á buxurnar. Þær eru ekki svo ljótar, hugsaði ég. Sus sagði um daginn að þessar buxur væru svo ljótar. Hmmm?

Svo hljóp ég af stað. Ég hafði valið nýja hljóðbók til að hlusta á; Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur. Ég þekki ekki höfundinn en ég veit að hún á heima á Akranesi og hún bar sigur úr býtum í glæpasagnasamkeppni Bjarts fyrir nokkrum árum. Ég er að læra að skrifa glæpasögu, yo! Göturnar voru sleipar (frost), það blés köldum vindi frá hafi og mér varð hálfkalt þrátt fyrir að ég reyndi að hlaupa hraðar. Ég kom niður á Strandvejen. Mér varð litið út á hafið og sá þessa einstaklega fallegu sólarupprás. Ætti ég að stoppa hlaup mitt til að njóta þessarar fögru stundar eða á ég enn á ný að reyna að slá hraðametið? hugsað ég. Og hvað gerði ég? Ég ákvað að reyna að slá hraðametið. Það tókst ekki og nú er ég fullur eftirsjár að ég skyldi velja hraðametið fram yfir fegurðina. Þvílíkur kjáni sem maður getur verið. Auðvitað eiga dagarnir að vera fullir af uppgötvunum, fullir af fegurð og ævintýrum. Megi dagar mínir verða langir svo ég fái annað tækifæri þegar ég sé annan eins sólaruppgang. Þá vel ég fegurðina fram yfir hraðamet.

Ps. Ég var að hlusta á Víðsjár-dóm Björns Þórs Vilhjálmssonar um bók Steinars Braga. Ég segi nú bara eins og hinn 5 ára Styrmir: „Hólí mólí“. Ég hef sjaldan heyrt annan eins lofsöng. Þetta var nærri því overkill. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég varð hálftortrygginn. Hvers vegna í ósköpunum er Steinar Bragi, þessi svarti riddari, settur upp á þennan himinháa stall af gagnrýnanda Viðsjár? Er bókin hans í alvöru svona rosalega góð? Ég googlaði Björn Þór og sá þá að hann hefur skrifað langar og lærðar ritgerðir um Steinar Braga. Ja, hérna, hugsaði ég, hann er sannur aðdáandi.

pps. Ég var rétt búinn að skrifa síðustu setninguna þegar mér barst tilboðsbréf frá Forlaginu í símann minn og hverju stilla Forlagsmenn upp á ljósmyndinni sem skreytir tilboðsbréfið? Þremur uppáhaldshlutum: 1) Hinum svokallaða forlagsketti, 2) Laxdælu og 3) Bók Steinars Braga. Hann er ansi vinsæll um þessar mundir, Steinar Bragi.

ppps. Og nú kemur annað bréf í símann minn og þar stendur meðal annars. „Og Bjarni Fritzson, með Orra óstöðvandi, er að baka ykkur hin á barnabókalistanum. Hvað er til ráða?“ Já, það sést ekki einu sinni skugginn af bókinni minni á metsölulista. Hér sit ég og reyni að slá hraðamet í langhlaupi. Ætti ég að gera eitthvað til að reyna að selja bækur?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.