Mér var bent á viðtal Jakobs Bjarnar hjá Vísi við Steinar Braga, rithöfund, sem nú nýtur töluverðar hylli. Hann er orðinn og hefur kannski verið einhvers konar cult-persóna. Mér fannst viðtalið í sjálfu sér frekar samhengislaust enda voru aðstæður til að taka viðtalið víst óhagstæðar, sagði blaðamaður. En Steinar Bragi slátraði Ólafi Jóhanni og Arnaldi Indriðasyni sem er fyrirsjáanlegt og léttvægt. Þeir eru vinsælir hjá röngu fólki. Þetta er spark upp á við, hættulaust fyrir Steinar að slátra þeim, þetta er ekki hans fólk en verra væri ef hann slátraði einhverjum í eigin hjörð. Ég veit ekki af hverju Steinar hefur þörf fyrir að ganga í skrokk á fólki í viðtölum, kannski til að styrkja stöðu sína sem cult maður. „Hann talar ekki eins og sá sem telur sig þurfa að hafa alla góða. Steinar Bragi talar eins og sá sem býr við frelsi listamannsins en ekki eins og rithöfundur í teboði,“ segir blaðamaðurinn. Nei, hann þarf ekki að hafa alla góða, að minnsta kosti ekki þá sem hafa hingað til snúið bakinu í hann.
Þetta minnti mig á orð Hermanns Stefánssonar sem sjaldan lætur tíðarandann og cult samtímans kúga sig: „Nú er mér ekki illa við nokkurn mann og stjórnast ekki af neinum annarlegum hvötum en mér þykir tímabært að rjúfa það ef orðin er til slík helgislepja í kringum Steinar að ekki þyki tækt að beita hans eigin meðulum á hann sjálfan.“ Og það er rétt hjá Hermanni. Það hefur myndast einhver helgislepja í kringum Steinar og eftirtektarvert að sjá Egil Helgason falla á kné fyrir Steinari Braga: „Undarlegur maður, undramaður, myndi ég segja.“ Ekki kæmi mér á óvart að Steinar tæki Egil af lífi í einhverju viðtali ef það hentaði honum eins og þegar hann afhausaði Kolbrúnu, „afturhaldskellinguna í Kiljunni“ á sínum tíma.