Það er orðið langt síðan ég hef skráð færslur inn í dagbókina mína, meira en vika og meira en tvær vikur kannski. Ég hef þó haft í huga, alveg frá því að ég skrifaði síðast, að ég ætlaði ekki að hætta að gefa skýrslur um sjálfan mig á Kaktusnum en hugsaði með mér að nú þegar ég væri á Íslandi skyldi ég einbeita mér að því að reyna að skrifa þær bækur sem ég er með í hausnum og þær eru allt í einu orðnar þrjár þótt ég einbeiti mér að einni í Íslandsdvölinni.
Ég hef verið í einangrun frá því að ég kom, að kvöldi þess 11. des. Dagarnir hafa því liðið í einsemd og ég hef skrifað. Út um gluggann sé ég úfinn Hvalfjörðinn og fjöllin með hvítar húfur. Ég hef hlustað á vindinn hvína í kringum húsið og séð vetrarstráin leggja sig flöt fyrir vindinum.
Ég set mér markmið fyrir hvern dag og hætti ekki fyrr en ég er búinn að ná í mark. Suma daga hef ég þurft að vinna langt fram eftir kvöldi því orðin koma ekki alltaf auðveldlega til mín. En ég sit fastur við tölvuna þar til ég er búinn.
Að vera bókahöfundur er ekki að skrifa heldur klára það sem maður skrifar. Skrifa eitthvað sem hefst inni í manni sjálfum og þegar maður er búinn er það ein heild. Hefur sína eigin þyng, er fullbúið, stendur óstutt og orðið að einhverju sem maður getur virt fyrir sér úr fjarlægð, hlustað á og sagt: Nú er þetta tilbúið. Eins og skúlptúr, eins og koncert. Þetta var þú, nú er þetta ekki þú.
Ég sit og skrifa og brýt heilann. Örvænti og gleðst. Inn á milli tek ég armbeygjur og ligg í planka. 100 armbeygjur á dag er annað markmið og því markmiði næ ég líka. Annan hvern dag hleyp ég 7 km. Hér í Hvalfirði hefur verið nokkur hvass vindur úr norðri sem hefur það í för með sér að ég hleyp aðra leiðina á móti vindi og heimleiðina með vindinum. Að hlaupa á móti sterkum vindi er eins og að hlaupa upp bratta brekku. Þetta er erfitt og nánast kvöl ef vegalengdin er löng. Þessi vindur setur í mig hlaupabeyg því mér finnst þetta erfitt.
Á kvöldin þegar ég hef náð markmiði dagsins er ég uppgefinn en ég reyni að lesa. Úti er koldimmt, ekki sést nema svartur veggur fyrir utan gluggann. Mér hefur ekki – þótt útsýnið á kvöldin sé ekki til að dreifa athyglinni –tekist að einbeita mér almennilega að því lesefni sem ég hef valið. Það gerir þreytan. Ég les Auði Ólafsdóttur um hennar ljósmæður, ég les danska bók sem átti að vera svo góð, ég hlusta á Sigurð Skúlason lesa Suðurglugga Gyrðis Elíassonar og ég les eina barnabók. Hún er eftir glæpadrottninguna, Yrsu Sigurðardóttur. Hún er sögð fyndin og mig langar að skoða hvernig fyndin barnabók er. Ég varð þó fyrir pínulitlum vonbrigðum þegar glensið strax á síðu tólf snérist um að höfuðpersónan prumpaði. Úps er þetta gamansemin sem gildir fyrir börn? hugsaði ég. Ég kann ekki að skrifa prumpubrandara. En bókin slær sem betur fer á mun fleiri strengi. Ég reyni að læra.
Ég er ekki með veirusýkingu þótt ég komi frá Danmörk sem er gegnsýkt af veirunni. Það sýna prófin tvö sem ég er búinn að fara í gegnum hér á Íslandi og nú er ég frjáls ferða minna.