„Hvað, kaupirðu bók eftir sjálfan þig,“ heyrði ég vinsamlegu afgreiðslustúlkuna í Eymundsson-bókabúðinni á Akranesi segja fyrir aftan mig þegar ég lagði bækurnar þrjár sem ég hafði keypt á búðarborðið. Jú, það var rétt hjá henni, ein af bókunum þremur var eftir sjáflan mig. En ég hélt að enginn mundi þekkja mig í búðinni. Ég var þar að auki með þessa skyldubundnu grímu fyrir andlitinu.
„Já, ég vil bara tryggja að að minnsta kosti eitt eintak seljist í landinu,“ sagði ég. Þetta sagði ég bara til að búa til drama í búðinni. Ég sá að öllum afgreiðslustúlkunum, því það voru aðeins stúlkur við afgreiðslu, var brugðið. Höfundur sem gekk um og keypti eigin bækur. En ég var ekki svona örvæntingarfullur. Ég hafði lofað kona á Akureyri að senda henni eintak með áritun en sjálfur átti ég ekkert eintak og því varð ég að kaupa bókina.
Afgreiðslustúlkan var ekkert nema góðvildin og tók fram að ég geti alveg verið rólegur bókin seldist ágætlega. En hældi svo hinum bókunum sem ég hafði valið. Grísafjörður eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur og Blokkin á heimsenda eftir hina margverðlaunuðu Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Bjarnadóttur. Þessar bækur keypti ég bæði fyrir mig og fyrir Öglu hennar Söndru og Mónu hans Nóa þegar þær koma hingað yfir jólin.
