Hvalfjörður. Að reyna að segja eitthvað satt. 2.

Það er sérstaklega tvennt sem hefur sótt á huga minn síðasta sólarhring og tengist skrifstörfum hér í Hvalfirði. Að vísu ætti ég ekki að byrja að greina frá skrifstörunum heldur nefna bæjarferð mína – því ég eyddi megninu af dagtímunum í Reykjavík – sem hófst þegar ég ók af stað frá húsinu hér í Hvalfirði rétt fyrir klukkan átta í morgun og lauk þegar ég renndi aftur í hlað um sexleytið. Í bæjarferðinni tókst mér:
1) fyrst af öllu að hitta Jón Karl Helgason sem alltaf er mér uppspretta nýrrar trúar á mannkynið. Fundur okkar fór fram á Kaffi Vest og ég óska í leiðinni Gísla Marteini og Pétri Marteinssyni til hamingju með að hafa búið til þetta góða athvarf fyrir vesturbæinn.
2) Ég náði í 600 síðna handrit á Forlaginu. Að vísu missti ég af Æsu, mínum góða ritstjóra sem var að sinna erindum úti í bæ þegar ég mætti. En handritið hef ég með mér alla leið í Hvalfjörðinn.
3) Ég náði að hitta annan mikilvægna vin minn, Jón Kalman, sem býr beint á móti Forlaginu. Hann er alltaf góður við mig og lætur mér líða eins og ég hafi afrekað eitthvað í lífinu og muni afreka eitthvað í framtíðinni. Ekki þarf maður mikið meira til að verða glaður.
4) Svo byrjuðu jólin. Nú er það svo að ég þarf að sinna öllum jólainnkaupum því fjölskyldan mín frá Danmörku kemur á morgun og fer strax í einangrun. Þess vegna hafði ég margra metra langan innkaupalista meðferðis í búðina. Sennilega þykir engum gaman að versla. Mér þykir það að minnsta kosti mikil kvöl og ég þurfti tvisvar sinnum í gegnum Hagkaup Kringlunni til að klára jólainnkaupinn. Tveir stútfullir innkaupavagnar. Enda verðum við 14 í mat á jólunum.
5) Sótti öndina hjá kjötkaupmanninum í Skipholti og flæskesteg. Svínsstykkið var svo langt að ég fór að hafa áhyggjur af því að ofninn væri kannski of lítill fyrir þetta feikistóra kjötflykki. Gömul kona horfði forviða á kjötmagnið og spurði mig hve mörg við yrðum í mat. Ég sagði henni það þá bætti hún hvöss við: „Þú veist að þið megið bara vera 10 saman.“ „Já, en þetta eru börnin mín,“ svaraði ég aumingjalega. „Áttu svona mörg börn?“ „Já, maður getur eiginlega sagt það,“ svaraði ég.
6) Jólatréð. Ég hélt að ég gæti keypt furujólatré en eftir langar ökuferðir um Reykjavíkurborg (með mörgum beygjum og mörgum umferðarljósum) gafst ég upp og keypti klassískt jólatré hjá Flugbjörgunarsveitinni.
7) Ekki virðist vera auðvelt að kaupa eldivið í Reykjavík. Hér er arinn. Ég endaði upp á Höfða á N1 bensínstöð. Þar fékk ég poka með eldivið.

En það sem ég vildi segja og hafði hvílt á mér.
1) Ég hlusta á bók Gyrðis Elíassonar, Sandárbókina, um rithöfundinn sem í einsemd sinni reynir að skrifa skáldsögu um hjón á ferð í útlöndum. Þau ferðast til að reyna að lífga upp á hjónabandið. Lestur Sigurðar Skúlasonar er stórfínn. En á einum stað segir höfundurinn (aðalsögupersónan sem reynir að skrifa skáldsögu) að honum takist ekki að glæða persónur sínar lífi þegar hann skrifi, þær séu pappamanneskjur og meira að segja rúmið sem þau sofa í er papparúm. Ég hnaut um þetta hjá Gyrði. Þarna segir Gyrðir eitthvað satt. Og ég áttaði mig á að þetta er einmitt það sem ég glími eilíflega við þegar ég skrifa; að reyna að sneiða hjá því að búa til pappamanneskjur; að komast hjá því að bergmála ósjálfrátt hegðun, tilsvör og mannlýsingar sem ég hef áður lesið.
2) Á miðvikudagskvöld sá ég Kiljuþátt Egils Helgasonar. Ég hafði aðallega ætlað að sjá viðtal við Kalman sem ég vissi að var á dagskrá. En áður en Kalman komst á skjáinn átti Egill viðtal við unga konu sem hefur sent frá sér sína fyrstu bók. Hún heitir Kristín Björg Sigurvinsdóttir og titill bókarinnar er Dulstafir – Dóttir hafsins. Þetta er fyrsta bók þessa unga höfundar og ég var satt að segja nokkuð snortinn yfir einlægninni og tilgerðarleysinu sem þessi unga kona sýndi í viðtalinu. Hún sagði frá sjálfri sér og bókinni sinni sem hún hefur skrifað síðan hún var 13 ára gömul og hvað fráfall pabba hennar eigi stóran þátt í hvernig skrifin þróuðust, þar sem hin mikla sorg yfir dauða pabba hennar er lýst á síðum bókarinnar. Það er einmitt þetta; að hafa hjartað með í því sem maður skrifar.
Að reyna að segja eitthvað satt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.