Hvalfjörður. Sóttkví að nýju

Það er kalt í Hvalfirðinum í dag. Það bítur í kinnarnar þegar maður gengur í morgunmyrkrinu niður að ruslagáminum með ruslapoka gærdagsins. Vindurinn er hvass og nístandi og kemur úr norðri.

Ég fékk ritdóm í Fréttablaðinu í gær. Ágætisdómur, sennilega, bróðir minn sendi mér að minnsta kosti miklar heillaóskir. En höfundinum fannst smávægilegar aðfinnslur ritdómarans eitthvað niðurdrepandi. Ég er ekki að segja að þær hafi ekki átt rétt á sér heldur nefni ég þetta bara af því að mér fannst óskemmtilegt að lesa þær. Svona er maður nú óþroskaður. Annað ekki þessu tengt. Ritdómarinn notar svolítið sérkennilegt orðalag sem ég hef ekki fyrr séð á íslensku: „Hins vegar má gott alltaf bæta og í lok dagsins hefði kannski verið skemmtilegra.“ Það var þetta í lok dagsins sem mér fannst svolítið sérstakt.

Í tilefni af ritdómnum tók ég mynd af bókinni, far-englinum mínum (angel to-go) og bamba sem er hér er staddur (bambi minnir mig svo á blíðuna í rödd Guðjóns G. Georgssonar.)

Nú er ég á leið til Keflavíkur að ná í mitt fólk frá Kaupmannahöfn og hverfa þar með á ný inn í sóttkví. Auf wiedersehen.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.