Hvalfjörður. Uppskrift að metsölu?

Ég man að þegar ég las að Dan Brown, ameríski metsöluhöfundurinn, tæki 100 armbeygjur á hverjum degi fylltist ég svolítilli aðdáun. Samkvæmt sögunni hefur hann tímaglas á skrifborðinu hjá sér og þegar glasið er tómt stendur hann upp frá ritstörfunum og tekur nokkrar armbeygjur. Síðan snýr hann tímaglasinu. Áður en vinnudegi er lokið hefur hann tekið alls eitthundrað armbeygjur. Þetta gerir hann á hverjum degi.

Það var samt ekki vegna Dan Brown, eða að ég teldi armbeygjur vera lykillinn að metsölu hans, að ég ákvað fyrir nokkrum vikum að taka upp þann sið að standa upp nokkrum sinnum á dag til að gera líkamsæfingar. Og ég tek eitt hundrað armbeygjur eins og Dan og ég ligg í planka í fimm mínútur á hverjum degi. Kannski er þetta þrátt fyrir allt uppskriftin til að komast á bóksölutoppinn? En ef satt skal segja er ég ekki sérlega upptekinn af sölu bóka minna og það er alveg heiðarleg játning. Ég hef miklu meiri áhuga á mér takist að skrifa góða sögu sem situr í huga lesandans.

Undanfarna daga hef ég lesið vinsælar, íslenskar barnabækur; sem sagt bæði barnabækur sem njóta söluvinsælda og einnig þær sem hafa hlotið náð fyrir augum verðlaunanefnda. Ég geri þetta til að reyna að verða betri bókaskrifari. En í gærkvöldi þegar ég hafði lokið við lestur á Grísafirði, hinni fallega prentuðu bók Lóu Hjálmtýsdóttur með skemmtilegu teikningunum, varð ég að horfast í augu við að ég hef allt önnur fagurfræðileg viðmið við bókaskrif en flestir af hinum vinsælu barnabókahöfundum (ég segi alls ekki þar með að bók Lóu sé léleg). Ég get hvorki né vil breyta því hvernig ég hugsa hvað séu góðar bókmenntir og á því ekki eftir að aðlaga mig að nýjum fagurfræðilegum kröfum samtímans. Þessi uppgötvun hefur þó ekki latt mig til bókaskrifa. Eitt viðmið er ekki réttara en annað. Ég held bara að ég sé af kynslóð sem lítur öðruvísi á hvað það sé sem prýðir góðar bækur, hvað sé góður texti og hvernig höfundur byggir upp frásögn svo hún myndi hinn fagra söguboga, en sú kynslóð sem nú er mest áberandi í barnabókaskrifum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.