Ég fór allt í einu áðan að lesa Sumarbók Tove Jansson. Ég keypti bókina í sumar en náði ekki að lesa hana áður en ég fór aftur til Danmerkur. En nú tók ég hana aftur fram. Kannski er ég farinn að þrá vor og sumar (svolítið snemmt). Að minnsta kosti hlakka ég til að komast til Ítalíu í sumar þegar allir geta áhyggjulaust hist aftur. En í bókinni hennar Tove rakst ég á hið fallega orð sólmistur og í sama mund og ég las orðið varð mér litið yfir Hvalfjörðinn sem er stilltur í logninu og sá fyrir mér sólmistur liggja yfir haffletinum. Það var falleg hugsýn.
En hvað um það mér finnst gaman að lesa Sumarbókina og finna þessa notalegu sumarstemmningu. Ég er nýbúinn með bók Sigríðar Hagalín, Eldarnir, þar sem allt (OBS! ALTERT! spoiler) endar í martraðarkenndri heimsupplausn og þá er kærkomið að flýja inn í sumarsveitasælu Tove. Ég fylltist aðdáun yfir mörgu í bók Sigríðar Hagalín, bókin er spennandi, höfundur hefur á undraverðan og sannfærandi hátt náð að setja sig inn á jarðfræði Reykjaness, bókin er skrifuð af miklu öryggi, í einu orði sagt (að vísu í fjórum orðum) þetta er vel gert. Ég er ekki hissa að bókin hafi uppskorið jafnmikið hrós og raun ber vitni.
Í gær hljóp (langhlaup) ég eftir nokkra daga hlé og viti menn ég tek framförum. Í gær hljóp ég á meðalhraða undir fimm mínútum pr. km. eða nákvæmlega 4:56 min. eftir hlaup að Saurbæjarkirkjuafleggjara og aftur til baka.
Nú hef ég ekki skrifað í nokkra daga eða ekki eftir að fjölskyldan kom frá Danmörku. Þetta hlé hefur gefið mér ráðrúm til að líta upp og til baka. Velta fyrir mér stöðunni, eins og vinsælt er að segja. Ég finn að ég hef að einhverju leyti orðið fyrir vonbrigðum (þó alls ekki sárum) með viðtökur á nýju bókinni minni. Dómarnir hafa allir verið lofsamlegir og ekki kvarta ég undan því. En þó finn ég fyrir áhugaleysi eða tómlæti, eins og bókin skipti ekki miklu máli; vel skrifuð barnabók og so what. Ég hafði vonast til að fólk yrði svo ánægt, ég hafði vonast til að finna gleðistrauma berast til mín en mér hefur einhvern veginn ekki tekist að vekja áhuga fólks. Ég er langt kominn með að skrifa þriðju bókina í Álftabæjarbókaflokknum. Þar með læt ég væntanlega gott heita og skrifa ekki meira um þau góðu börn Millu og Guðjón G. Georgsson. Þegar (eða ef ) ég klára bókina get ég kallað bókaröðina trilogíu. Það er virðulegt. Álftabæjartrílógían.