Hvalfjörður. Skáldkonan með greindarlegu augun.

Í sveitinni eru dagarnir stuttir, ársins stystu dagar og lengstu nætur. Ég vakna og heimurinn handan gluggans er ósýnilegur. Ég horfi út en sé sjálfan mig speglast í rúðunni. Fyrir utan er allt troðfullt of kolsvörtu myrkri. Allt í einu fer að glimta í ljósrák á himninum fyrir ofan fjöllin handan fjarðarins þegar ég hef sest niður með kaffibolla. Ég hlusta eftir hljóðum og þykist heyra morgunsýsl músafjölskyldunnar sem býr í lítilli, bjartri holu undir veröndinni við húsvegginn. Annars er þögn.

Ef ég hins vegar opna dyrnar og sting höfðinu út til að kanna kuldastigið og vindstyrk kemst ég að raun um að það er frost en alger vindstilla. Dúnalogn. Sperri ég eyrun heyri ég þungan dyn berast úr suðri. Þetta minnir á umferðarnið en hér er ekki einn bíll á ferð og heldur ekki á þjóðvegi númer eitt sem mætir Hvalfjarðarveginum miklu utar í firðinum. Þar er umferðin aldrei svo þung að þaðan kæmi þessi djúpi langi tónn. Mig grunar helst að hljóðið komi frá verksmiðjunni á Grundartanga þótt þangað séu örugglega tíu til fimmtán kílómetrar í loftlínu og hún sé okkur ósýnileg.

Á jóladögunum hefur hér verið fjölmenni; bæði fullorðnir, börn og einn hundur. Dagar mínir hafa snúist um fjölskylduna og ég hef svo sem ekki gefið mér tíma til að sinna öðru. Þó hef ég lesið tvær bækur: Sumarbók, Tove Jansson sem er stutt og skrýtin bók um ömmu og barnabarn. Mér líkaði vel að lesa bókina. Ég kláraði líka aðra bók sem ég hef af einhverjum óskiljanlegum ástæðum haft töluvert mikinn áhuga á að lesa. Bókin heitir Þagnarbindindi og er eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Ég þekki ekki höfundinn og hef sennilega aldrei hitt hana. Ég hafði lesið einn stuttan kafla úr bókinni strax og hún kom út í haust og þótti töluvert mikið varið í það sem ég las. Síðan áskotnaðist mér bókin í fyrradag og ég gleypti hana í mig í einum rykk. Þegar ég skoðaði bókarflipana þar sem prentuð er mynd af höfundinum, tók ég sérstaklega eftir augnsvip skáldsins sem mér þótti sérlega greindarlegur. Og mér fannst andlitið líka óvenju viðkunnanlegt og alveg í samræmi við þann texta sem ég hafði nýlokið við að lesa. Þetta er fín og falleg bók hjá þessari geðþekku, ungu konu. Ég hef sem sagt lesið mér til ánægju tvær bækur frá upphafi til enda síðustu daga.

Þegar ég lagðist til svefns í gær hélt ég áfram að lesa bók Auðar Ólafsdóttur, Dýralíf, þar sem frá var horfið. Í fyrstu var ég nokkuð efins um bókina, þótti hún kannski ekki eftirtektarverð, en nú þegar komið er fram yfir miðju hefur sagan náð tökum á mér. Sérstaklega er ég hrifinn af hve Auði tekst að láta sér fátt um finnast, þótt persónur hegða sér undarlega eða skrifa og segja eitthvað sem er fáheyrt. Höfundur lætur sér hvergi bregða. Ég hef gaman af því.

En nú erum við Sus og Davíð orðin ein í kotinu. Sus les próförk að 700 síðna langri bók eftir sænskan verðlaunahöfund, Davíð gekk niður í fjöru til að mynda selina sem eiga heimkynni sín í vík í firðinum. Og hér stend ég við gluggann og horfi út í hvíta snjómóðuna. Það er orðið bjart og heimurinn sem í morgun var ósýnilegur liggur flatur að fótum mér. Bráðum kemur nýtt ár.

Bláhvít snjóveröldin í Hvalfirði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.