Hvalfjörður. Óvænt og æsandi.

Ég kláraði bók Auðar Ólafsdóttur í gær, bókina Dýralíf. Í stuttu máli er ég glaður að hafa lesið bókina. Ég get meira að segja bætt því við að trú mín á bókmenntir sem listform efldist (ég var satt að segja farinn að veikjast í trúnni). Svo frétti ég að bókin hefði verið valin bók ársins hjá Morgunblaðinu. Ekki veit ég hvað liggur að baki þessu vali en ég er sammála valnefnd Morgunblaðsins að bókin hennar Auðar er góð.

Þau stóru tíðindi urðu í morgun að ég ræsti Mazda bílinn sem ég hef að láni og brunaði í gegnum snjóinn í Hvalfirðinum og alla leið inn til Reykjavíkur. Og þótt það kunni að hljóma ótrúlega átti ég stefnumót við félaga mína í HALA-flokknum. Ég hafði mikla ánægju af þessum fundi. Ekki ætla ég að tíunda samræðuefnin.

Í dag er næstsíðasti dagur ársins. Eins og venjulega hlakka ég til áramótanna og því sem bíður mín árið 2021. Við hver áramót finn ég fyrir kitli í maganum af spenningi fyrir því sem bíður mín og alltaf er ég sannfærður um að eitthvað óvænt og æsandi sé handan við hornið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.