Undir þokunni sem liggur hér yfir – ekki yfir mér eða huga mínum – virðist árið 2020 ætla að laumast burt, smeygja sér óséð út í buskann eins og það skammist sín fyrir allt það sem það hefur flutt með sér. Ég ætla þó að minnast ársins 2020 fyrir gleðilega atvik. Ég hafði hugsað mér að segja frá ánægjustundum ársins en eftir tveggja klukkustunda langar rannsóknir á athöfnum mínum og gleðistundum ársins 2020 gafst ég upp. Ekki vegna þess að ég hafi ekki fundið eftirminnileg augnablik heldur vegna þess að ég var einungis búinn að fara í gegnum janúarmánuð og sá að ef ég ætlaði mér að velja eina gleðistund fyrir hvern mánuð tæki það mig 24 klukkustundir (eða einn sólarhring) að stunda rannsóknarvinnuna. Ég stóð því bara upp og tók þess í stað þátt í þeirri gleði sem fram fór á heimilinu og lét skrifin á Kaktusinn bíða betri tíma.
