Hvalfjörður. Ef maður gerir ekkert, kemur ekkert.

Að fá andann yfir sig, eins og sagt er, er undarlegt fyrirbæri og ég hef ekki hugmynd um hvernig þessi andi virkar. Það einasta sem ég get gert er að skapa ramma fyrir andann; rétt skilyrði. Ég veit vel að þetta hljómar undarlega en ég hef það á tilfinningunni að ef ég legg mig fram, legg mig í framakróka, sest niður snemma dags, puða þar til ég hef náð vinnumarkmiði dagsins þá er eins og andinn sjái að hann þarna, þessi með stóra nefið, virðist berjast, hann keppist við og því ákveður andinn að koma til hans, stórnefjaða mannsins sem puðar. Og andinn kemur yfir mig. Ef maður gerir ekkert, kemur ekkert.

Að gera upp árið? Þetta er víst tíminn; fyrsti dagur ársins og sá síðasti á liðnu ári rétt horfinn fyrir hornið. Fyrst kom upp í hugann hvers sakna ég mest frá árinu 2020 og um leið koma upp ferðir mínar í Batman-íbúðina í París. Ég hafði skipulagt nokkrar ferðir til þess að sitja yfir skrifum. Mér tókst að komast í janúar og það var í alla staði dásamlegt ferðalag. Afköstin voru góð og mér tókst að koma nógu mikilli röð og reglu á skrif mín að úr varð á endanum bókin sem kom út í október: Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf.

Bók ársins. Í ár hef ég lesið einhver ósköp af bókum … finnst mér. En í mér hefur verið skelfilegt eirðarleysi þegar ég les. Ég er alltaf að leita að bókinni sem talar beint inn í hjartað á mér. Þá bók hef ég ekki hnotið um í ár. En ég hlakka óskaplega til að lesa nýja bók Kazuo Ishiguro sem kemur út í mars 2021. Bókin heitir Klara and the Sun og ég er hálfhræddur um að þar sé bókin sem ég hef verið að leita að allt árið 2020.

Hljómplata ársins:  Sú plata sem mér er efst í huga er nýja plata Nick Cave, Idiot Prayer. Það þykir mér fín plata.

2020 „Fuck off. My thoughts on 2020 are mostly this. 2021: bring it on!“ segir vinkona mín í Englandi. Þetta er ekki mín afstaða til ársins sem var að líða en ég finn að ég er ekki í stuði til að gera upp árið og ég læt það bíða betri tíma. En tvennt hef ég hugsað mér að gera á árinu 2021: Hlaupa samtals 1000 km og ganga 4.000.000 skref.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.