Fyrir ofan Færeyjar. Hinir svölu fordómar

Ofan frá himninum eru Færeyjar baðaðar sól, eins og þessi hluti heimsins njóti sérstakrar náðar. Allt er upplýst; grasið, klettarnir, húsin og kirkjan á hólnum með sína hvítu veggi og sitt rauða blikkþak. Mér dettur helst í hug að fá lánaða fallhlíf og stökkva niður á þennan blessaða blett. En flugvélin, Hekla Aurora, sem ég flýg í er hraðfleyg og áður en ég get almennilega tekið þessa ákvörðun um að hoppa erum við komin framhjá eyjunum og þjótum með hvínandi hraða inn í nýjan, þykkan og gráan skýjavegg í átt til áfangastaðar. Kaupmannahafnar.

Dagar mínir á Íslandi eru að baki. Ég hefði alveg viljað verið lengur, ég hafði það stórgott. En að sumu leyti er líka fínt að koma aftur í hversdaginn. Ég hlakka til að byrja aftur að skrifa, kannski nýja bók eða kannski held ég áfram þar sem ég stoppaði síðast í annarri bók. Ég held áfram að æfa mig til að verða betri, komast úr lélegheitum og meðalmennsku og upp í meistaraflokk. Ég hef notið stundanna á Íslandi, að vísu hef ég ekki verið mikið í tengslum við land og þjóð því dagarnir hafa liðið með stórfjölskyldunni, öllum mínum mörgu börnum í sveitinni.

Það var kannski eins gott að ég hélt mig bara í Hvalfjarðarhreppi því ég varð var við að í gömlu Reykjavík er lítil hreyfing sem hefur andstyggð á íbúum annars sveitafélags í nágrenni Reykjavíkur. Ég varð dálítið undrandi og svolítið skelkaður því hver veit nema þessi óvild í garð annarra íbúa landsins nái til mín og sveitafélagsins sem ég bý í. Maður veit aldrei í hvaða átt þessi litli flokkur úr hinni hárréttu Reykjavík beinir rétthugsandi illgirni sinni og meinfýsi. Það yrði kannski líka híað á mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.