Espergærde. Niðurstaða sálgreinandans.

Og svo er maður hér, aftur kominn á sinn útlegðarstað, þar sem af hússins ufsum drýpur erlent regn. Meira að segja kveina ókunnir vetrarvindar á meðan ég sit í innihlýjunni og reyni að koma röð og reglu á hús og hug. Það var skemmtilegt að heyra sálgreiningu áhugasálfræðings – sem ég hitti á Kaffi Vest rétt fyrir jól – en hann taldi sig vita að ég hefði aldrei, og hafi aldrei, almennilega getað komist yfir að hafa annað hvort verið þvingaður í útlegð eða dæmt sjálfan mig í útlegð þegar ég á sínum tíma flutti til Danmerkur. Þetta er áhugaverð kenning um sálarlíf hins stórnefjaða fyrrum útgefanda.

Til að það sé nú fært til bókar mætti ég i röntgenmyndatöku í morgun, þann 4. janúar 2021 á danska Ríkisspítalanum, röntgendeildinni í Helsingør. Hægri olnboginn á mér, sem allt í einu er orðinn allskakkur, og ómögulegt er að rétta úr honum, var myndaður til að finna skýringar á afmynduninni. Vegna þessa undarlega bogna olnboga – sem veldur mér nokkrum kvölum – get ég sem sagt ekki spilað tennis. Þetta er ekki tennisolnbogi. Iðkun íþrótta er því orðin takmörkuð, enginn fótbolti, enginn tennis, en ég get enn hlaupið og var ég kominn á harðahlaupum niður á Strandvejen fyrir klukkan átta í morgun. Hlaupatíminn var lélegur.

Í dag, þar sem við strákarnir erum einir heima – Sus varð eftir á Íslandi – ætla ég að elda herramáltíð. Það er gífurlega órétt máltíð, ef tekið er mið af því sem þykir alrétt. Hafði ég hugsað mér að harðsteikja kjötbollur. Og þar sem þessi fína máltíð er á kvölddagskránni ætla ég að velta fyrir mér hvaða rithöfundi ég gæti hugsað mér að bjóða hingað til að borða kjötbollur með okkur drengjum? Fyrst datt mér í hug Paul Auster, hann er svolítill kjötbollukall, en ég ætla aðeins að hugsa málið betur. Sú starfsstétt sem ég hef oftast boðið í mat í lífi mínu eru rithöfundar, það er ég alveg viss um, því kvöldmáltíðir með rithöfundum skipta hundruðum. Einu sinni bauð ég meira að segja Margreti Atwood í mat – henni voru ekki boðnar kjötbollur – og það var aldeilis söguleg kvöldmáltíð. Sennilega sú síðasta sem ég borða með henni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.