Espergærde. Efasemdir Kaktusslesaranna

Ég hef sett mér það markmið að hlaupa 1000 km í ár og af þeim sökum hef ég verið kominn í hlaupafötin og út á götu fyrir klukkan 08:00 á morgnana. Mér hefur tekist að hlaupa rúma 20 km fyrstu fimm daga ársins. Allt lítur því enn ágætlega út. Það var logn í morgun þegar ég lagði af stað og mér tókst í hugsanaleysi að taka allt of hraðan sprett fyrsta kílómeterinn. Það hentar mér illa að reyna á mig svona snemma því kroppurinn er bara ekki tilbúinn og þegar ég hleyp of hratt fæ ég heiftarlega magapínu. Það var einmitt raunin í morgun. En ég hljóp hálfþjakaður af magapínu meira en fimm kílómetra.

Þar sem gamla skrifstofan mín var – Gylfesvej – er nú komin það sem kallast lífsstílsbúð, eða ég held að slíkar búðir séu kallaðar þessu nafni. Þar inni eru nú seldir alls kyns skrautmunir fyrir heimili auk vel hannaðra nytjavara. Sara du Nord – design heitir búðin og þegar ég hljóp þar framhjá í morgun og virti fyrir mér gluggann sem áður var skreyttur með bók vikunnar var hrópað til mín. Mér er ekki vel við að gera hlé á hlaupi mínu því leit ég varla upp en veifaði án þess að velta fyrir mér hver kallaði og hljóp bara áfram. En þá var kallað á ný.

Hinum megin götunnar stóð vinkona mín, ballerínan – auðvitað veit ég ekki hvort konan er ballerína en hún ber sig þannig, fött og spengileg. Hún tók hálfvegis á rás yfir götuna til að heilsa upp á mig og því gat ég ekki annað en numið staðar.
„Sæll, æ, hvað ég sakna að geta ekki komið inn í kaffi til þín á göngutúrunum mínum. Þar var svo notalegt,“ sagði hún formálalaust.
Ég hikaði því ég vissi ekki hverju ég átti að svara og ætlaði að fara að tuldra eitthvað þegar hún bætti við. „Hvar ertu með skrifstofu? Ég ætti kannski bara að breyta gönguleiðinni svo ég geti byrjað að koma aftur í kaffi.“ Hún brosti uppörvandi til mín.
„Ég er nú bara fluttur heim … ég sit heima og skrifa. Og engin bók vikunnar þessar vikurnar.“ (Ég bæti hér við innan sviga að nokkrir félagar mínir sem ég hitti á Íslandi milli jóla og nýárs minntust á þessar færslur mínar um ballerínuna eða sígaunakonuna (eins og einn drengjanna kallaði hana) og töldu hana ímyndun eina. „Þetta eru blautir draumar,“ sagði einn. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég virti ballíneruna fyrir mér með sína síðu dread-lokkana. Óvart skellti ég upp úr en tókst fljótt að kæfa hláturinn. Hún misskildi kæti mína og hélt að ég færi að hlæja út af þessu með bók vikunnar.)
„Já, það væri fyndið að stilla upp bók vikunnar inni á heimilinu. Kannski ættirðu að gera það.“
„Nei, ég var að hlæja út af öðru,“ sagði ég því mér fannst neyðarlegt að hún héldi að ég væri svona upptekinn af þessari bók vikunnar.
„Nú, hvað er svona fyndið?“
Ja, hverju átti ég að svara þessari spurningu?

Samtal okkar varð lengra – ég slapp með einhverju tafsi að útskýra hlátursrokuna – og hún upplýsti mig í staðinn að hún væri að hlusta á frábæran upplestur Davids Horovitch á The Buried Giant eftir Kazuo Ishiguro. „Ég fór að hlusta á hana af því að bókin var einu sinni bók vikunnar hjá þér. Þetta hefur áhrif,“ sagði hún og blikkaði mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.