Í morgun – hann hringdi á bjöllunni hjá mér fyrir klukkan átta – hitti ég póstdrenginn, þann elskulega, unga pilt með kanínutennur og gelstorkið hár. Hann var í einkennisbúningi póstsins; blárri flíspeysu og bláum buxum. Eins og venjulega mætti mér breitt bros þegar ég opnaði dyrnar. „Pakki til þín, kæri Íslendingur,“ sagði hann hlæjandi og rétti mér lítinn pakka. „Þú ert alltaf að fá pakka! Þú ert aldeilis vinsæll, hehe.“
„Af hverju ertu svona snemma á ferðinni,“ spurði ég. „Klukkan er ekki einu sinni orðin átta?“
„Já, komdu og sjáðu! Ég gat ekki sofið… hehe … ég byrjaði að vinna klukkan sex þótt ég eigi ekki að byrja fyrr en klukkan átta … hehe … ég er búinn að fá nýjan bíl … nýjan póstbíl, sjáðu.“ Og hann strunsaði af stað út garðstíginn og út á götu og ég í humátt á eftir. Það lá snjór yfir öllu og þarna stóð gljáandi póstbíll.
„Þetta er FIAT-bíll, alveg glænýr. Hefurðu prófað að keyra FIAT-bíl. Þetta er alveg frábært ökutæki. Alveg æ-ði-s-legt!“
Svo reif hann upp bílstjórahurðina svo ég gæti séð inn í stýrishús bílsins. Ég hef ekki áhuga á bílum og get varla séð mun á FIAT-bíl og TRABANT-bíl. En ég gaf frá mér aðdáunarstunu til að gleðja vin minn, póstmanninn. Ég hef sjaldan hitt mann sem á svo auðvelt með að hrífast og gleðjast yfir litlu, eins og þennan unga dreng. Ef það er ekki FIAT-bíll þá er það sjónvarpssería sem honum finnst svo stórkostlega frábær, ótrúlega góð kvikmynd sem hann hefur séð, eða dúndurgóði harðfiskurinn sem ég gauka að honum og hann hafði maulað alsæll yfir flotta sjónvarpstækinu sínu. Hann virðist alltaf glaður og stórhrifinn af lífinu. Þetta er fyrirmyndarmaður.
Ég segi frá þessu hér því ég var að hlusta á bók í gær í afbragðsgóðum lestri Sigurðar Skúlasonar þar sem nánast ekkert er æðislegt heldur þvert á móti. Í stað þess að vinna eins og heiðarlegur maður tók ég fram pensil og málningarrúllu og hóf að mála handrið og hurðir hér innanhúss. Á meðan ég dundaði mér við þetta málningarstúss hlustaði ég (og náði að klára) hljóðbókina Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson. Ég er eiginlega alltaf stórhrifinn af bókum Gyrðis en ég fylltist skelfilegu óyndi á að hlusta á þennan fína lestur. Allt er óyndislegt í Suðurglugga Gyrðis. Sögumaður er rithöfundur og er óánægður, fullur af óyndi, nísku (bæði á peninga og ást) og honum gengur illa að skrifa. Blekborðinn í ritvélinni (Olivetti) er þurr, mamma hans er óyndisleg, síminn hans er batteríslaus, bíllinn hans er óyndisleg, gömul, hálfónýt drusla á sumardekkjum um hávetur, hann býr í óyndislegri íbúð, rithöfundurinn skrifar um óyndislegt fólk á ferðalagi, forleggjarinn hans er óyndislegur. Til að kóróna óyndisleikann er bókin full af einhverri aulafyndni (afsakið, en mér finnst þetta algjör aulafyndni. Sumir kunna að veltast um af hlátri, þetta er auðvitað smekksatriði) oft með vísun í bókatitla, bókmenntapersónur eða rithöfunda. Það lá við að ég hætti að hlusta þegar höfundur lýsti jarmandi kind yfir dauðu lambi sínu og endar höfundur lýsinguna á þessum óyndislegu aðstæðum með því að taka fram að kindin fái ekki eða eigi ekki rétt á áfallahjálp. Hmmm! Gyrðir skrifar vel en þessi bók finnst mér ekki hans besta.