Espergærde. Tjarnarsund í regni

Föstudagur og ég var að gera þrennt í einu: Tala í síma, skrifa tölvupóst og kaupa nýja bók á Amazon – hún er víst enn óútkominn en ég fæ hana bráðum – eftir George Saunders, A Swim in a Pond in the Rain. Ég ákvað að ná mér í bókina eftir að ég hafði lesið viðtal við höfundinn. Saunders er mjög upptekinn af Tsjekhov og smásögum hans og það finnst mér gaman að lesa um. Hann lítur á Tsjekhov sem sérstakan boðbera samúðar, vinsemdar og sterkrar siðferðiskenndar. „Þegar maður les sögur Tsjekhovs er alltaf eins og hann segi: „er eitthvað fleira sem ég ætti að vita,“ eða „kannski skjátlast mér,“ Og þessi afstaða hans virðist sköpuð til að hlúa að kærleika eða að minnsta kosti reynir Tsjekhov alltaf að gera sitt besta til að sjá hið góða í samferðarmönnum sínum og lætur þá njóta vafans. Einmitt vegna þessa er ég ekki aðdáandi samfélagsmiðlana; þar eru dyggðir Tsjekhovs ekki haldnar í heiðri. Þar segir fólk það sem því dettur fyrst í hug og sprautar óyfirvegað eitri yfir samferðarmenn sína í stað þess að hinkra og grafa dýpra í heilann, þar sem samkenndin og samúðin býr, áður en eitrinu er sprautað. Ég held í raun og veru að samfélagsmiðlarnir séu að drepa okkur. Ég er satt að segja alveg sannfærður um það.“ Svona talar George Saunders.

Ég get að mörgu leyti tekið undir orð George Saunders að samfélagsmiðlarnir ýta ekki undir það góða og göfuga heldur oft þvert á móti. En þeir eru mikilvægt valdaverkfæri sem sumir eru lagnir að beita í eigin þágu eða í þágu ákveðins málstaðar sem þeim er kær. Ég man til dæmis þegar mér varð á að nefna að sumir rithöfundar væru duglegir að vekja athygli á verkum sínum í gegnum samfélagsmiðla (og ég hafði og hef ekkert vont um það að segja) fékk ég óþægilega, slepjulega skítahrúgu yfir mig fyrir að dirfast að benda á eitthvað sem einhverjum líkaði ekki. (Að vísu veit ég að öll þau viðbrögð byggðust á misskilningi því þeir sem tóku þátt í skítamokstrinum höfðu ekki einu sinni gefið sér tíma til að athuga eða lesa hvað ég hefði í raun og veru skrifað. En svona geta þessir samfélagsmiðlar verkað illa. En ég ætla ekki að halda því fram að þeir séu alvondir. Stundum birtist eitthvað gagnlegt þar.) Nóg um samfélagsmiðla.

Ég keypti ekki bara bók George Saunders því tvær aðrar bækur ruku ofan í innkaupapokann í gær og þær voru íslenskar. Ég hafði lesið nokkur ljóð eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur og hafi furðað mig á og glaðst yfir hversu snjöll þau voru og skemmtileg. Ég vissi ekki um skáldið Arndísi Lóu en enginn vafi er á að þarna er á ferðinni mikið skáldaefni og spennandi rithöfundur. Bók hennar Taugaboð á háspennulínu keypti ég hjá Unu – útgáfuhúsi og þar keypti ég líka bók Maríu Elísabetar Bragadóttur, Herbergi í öðrum heimi, sem hefur hlaðið á sig lofi. Ég hlakka mjög til að lesa báðar þessar bækur.

ps ég heyri að það er ólga í nokkrum rithöfundum yfir úthlutun rithöfundalauna í ár; hvar er rökstuðningurinn að þessi eða hinn fær 12 mánuði og þessi eða hinn bara 0 mánuði er spurt. Að vera rithöfundur á launum hjá ríkinu er ekki venjulegur vinnustaðasamningur, þar sem menn geta sótt um þegar störf losna, fengið tímabundna ráðningu eða langtímasamning, heldur skulu allir sækja um í einu og þeir sem teljast selja of margar bækur geta ekki af siðferðisástæðum sótt um nákvæmlega þetta starf þótt þeir stundi það af einlægni og innileik. Öllum þætti sjálfsagt að þeir fengju laun fyrir öll önnur störf sem þeir tækju sér fyrir hendur, jafnvel þótt þeir seldu margar bækur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.