Espergærde. Framlag mitt til heimsins.

Ég var að byrja á ritgerðarbók George Saunders, A Swim in a Pond in the Rain. Bókin kom út í dag en ég hafði pantað hana fyrir nokkrum dögum, áður en hún kom út. Þegar ég lá upp í rúmi í gær og var að lesa bók Maríu Elísabetar, Herbergi í öðrum heimi, heyrðist skyndilega PLING í iPadinum mínum. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð þegar þetta skyndilega og skerandi hljóð rauf kyrrðina í myrku svefnherberginu og það tók mig augnablik að átta mig á því að á miðnætti sendi Amazon mér bókina hans Saunders beinustu leið inn í iPadinn minn, alla leið frá Ameríku. Tæknin, Guð minn góður! Ég viðurkenni að ég lagði frá mér bók Maríu Elísabetar til að geta skoðað bók Saunders sem ég hafði hlakkað mikið til að fá.

Ég sá um leið að texti Saunders var dásamleg lesning eins og vangaveltur hans um gildi orðsins en (but) í einni af smásögum Tsjekhovs. Strax á fyrstu síðu fór höfundur að tala um hvað væri kannski besta framlag hans til heimsins. Og hvað var það? Mikilvægasta gjöf hans, segir hann, er að honum hafi tekist að miðla þeirri þekkingu sem hann hefur aflað sér á smásögum rússnesku meistaranna (Tsjekhov, Turgenev, Tolstoy, Gogol …) til nemenda sinni í háskólanum í Syracuse síðastliðin tuttugu ár. Þegar ég las þessi orð höfundarins undir hlýrri sæng í dimmu herbergi fór ég að hugsa um hvað og hvort ég hafi fært heiminum eitthvað sem hefði raunverulegt gildi. Ég gat rifjað upp fjölda atvika sem höfðu sérstaka þýðingu fyrir sjálfan mig (hinn ógleymanlegi snúningsbolti upp í vinkilinn í leiknum á móti Udinese, skallamarkið á Valsvellinum …) en ég átti erfitt með að finna eitthvað sem ég hafði afrekað sem heimurinn í heild sinni hefði notið góðs af og gæti varla verið án.

Snæi minn, sagði ég við sjálfan mig, nú þarftu aldeilis að herða hugann, pressa saman rasskinnarnar og afreka eitthvað sem heimurinn verður þér að eilífu þakklátur fyrir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.