Espergærde. Hvað er það vermætasta í dag?

Hó, hér snjóar … og snjóar. Veggripið er svo lélegt á hlaupaskónum mínum að ég kemst alltof hægt áfram. Ég spóla á sama stað. En ég hleyp og nú er 13. janúar og ég hef þegar náð 50 km í janúar. Kannski næ ég 100 km í janúarmánuði.

Nú í kórónatíð hitti ég ekki sálu. Ég sit hér uppi á mínu priki og reyni að puða, því ég hef heyrt að andinn komi yfir þá sem puða. En ég byrjaði daginn á því að líta á fréttir frá Íslandi og af einhverjum furðulegum ástæðum les ég enn mbl.is – mér finnst meira og meira pláss fara í eitthvað undarlegt frægðarfólk. Kannski ekki skrýtið.

Ég hef lært að olía og öreindakubbar eru ekki lengur eftirsóttustu verðmæti heims heldur … athygli. Athygli er það allra vermætasta og allir keppast um athyglina. Og þess vegna er öll þessi frægu og þekktu andlit á síðum fjölmiðlana; þau draga til sín athygli. Máttur og völd fræga fólksins eykst dag frá degi. Nú fylla þessi frægu andlit öll horn fjölmiðlana í stað efnis sem hefur einhvern alvöru kjarna. Öllu er stýrt af því sem kallast athyglishagfræði.

Upplýsingar streyma í gífurlegu magni frá fjölmiðlum, félagsmiðlunum, hinu opinbera … og allir kalla á athygli okkar en hún getur bara verið á einum stað í einu. Það er ofgnótt af upplýsingum en athyglin er takmörkuð auðlind og þess vegna er hún svona gífurlega eftirsótt.

Manni finnst eins og eymd fjölmiðla verði æ dýpri í þörf sinni eftir athygli og mörg dagblöð stefni í það að verða einskis vert rusl. Þau eru í dauðakrömpum og telja að leiðin úr dauðstríði sínu sé að framleiða og birta auðmeltara efni. Stundum finnst mér að heimurinn skuli staldra við eitt andartak, hugsa sig um og skrúfa ofan af allri vitleysunni. Það er svo mikið rugl í gangi. Það er eins og enginn viti lengur hvað sé mikilvægt og hvað sé einskis virði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.