Espergærde. Tunglið, Sally, Wayne, engisprettur og villihunang.

Í gær fékk ég tölvupóst frá útgáfufélaginu Tunglinu þar sem þeir boða nýja sendingu af Ljóðabréfi, útgáfu sem þeir hafa staðið fyrir í nokkur ár. Ég var satt að segja undarlega glaður þegar ég fékk þetta hógværa bréf frá Tunglinu. Sennilega var ég bara svona snortinn vegna þess að síðustu daga hefur mér þótt lágkúran í sínum mörgu myndum vera bera hið fallega og göfuga (mitt mat) ofurliði. Ég skora á alla þá sem langar að hlúa að óeigingjörnu starfi í þágu ljóðlistarinnar, bókmenntanna … að gerast áskrifendur að hinu vekjandi Ljóðabréfi Tunglsins. Hér gerist maður áskrifandi: TUNGLIÐ.

Fyrir rúmlega tveimur árum sendi Sally Rooney hin írska skáldkona, frá sér nýja bók, Eins og fólk er flest, en þá var hún 27 ára og þegar orðin mikil bókmenntastjarna. Hún kærði sig ekkert sérlega mikið um frægðarstatusinn og sagði viðtölum að óvíst væri að hún skrifaði aðra bók og ekki væri hún viss um að vinsældir hennar mundu endast lengi. „Kannski er ég svona höfundur sem skrifar tvær vinsælar bækur á þrítugsaldri og skrifa svo ekkert meir. Ég veit ekki hvort ég gefi út aðra bók.“ En þessi orð hennar virðast ekki ætla að rætast því nú í september er von á nýrri bók eftir þennan athyglisverða rithöfund. Bókin heitir. Beautiful World, Where are you?

Sally Rooney hefur nokkrum sinnum sagt frá því í viðtölum að hún hafi alltaf – hvert sem hún fer – Nýja testamentið meðferðis. Það er sú bók sem hún les oftast „enda vinsæl bók“ eins og hún segir. Ég hef oft hugsað um þessi orð Sally og velt því fyrir mér hvort maður sér áhrif Nýja testamentisins í bókum hennar. En í gær þegar ég hugsaði enn einu sinni um Sally og Nýja testamentið dró ég fram mitt eigið Nýja testamenti, myndskreytt, sem ég fékk í jólagjöf fæðingarár mitt 1961 frá gömlum manni sem hét Þórður Loftsson. Hann hefur skrifað í eintakið mitt. Í morgun ákvað ég að bæta lestri Nýja testamentisins á lista yfir þá hluti sem ég vil afreka í ár. Í ár skal ég sem sagt lesa þessa helgu bók tólf sinnum og ég byrjaði morgun og las um Jóhannes skírara, englana, klæði úr úlfaldahárum, dúfurnar á himninum og engisprettuát.

En ég hugsaði líka um Wayne Rooney fótboltamanninn og framkvæmdastjóra Derby County (fótboltalið) og hvort hann og Sally Rooney væru skyld, frændsystkini eða alsystkini. En með því að tengja saman þessa tvo einstaklinga rætist draumur minn um að sameina tvenn brennandi áhugamál: bókmenntir og fótbolta. Eiginlega ætti ég að búa til skemmtivef sem helgaður væri þessu tvennu; Boltinn í bókaskápnum. Það yrði uppáhaldsvefurinn minn.

ps. Nú rifjast upp fyrir mér að uppáhaldssetning Nicks Cave, ástralska söngvaskáldsins, úr Nýja testamentinu er: En eftir hvíldardaginn, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, kom María Magdalena og María hin til að líta eftir gröfinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.