Espergærde. Bílferð á vegi E47 sem vekur óvænt svör.

Nú var komið að því og ég átti að vera mættur klukkan tíu í morgun. Ég hafði verið látinn vita að læknirinn sem fengið hafði hið þakkláta verkefni að sprauta mig í olnbogann hét Christofer. Tilhlökkun mín var mikil og ég hef beðið í eftirvæntingu eftir að þessi dagur rynni upp og ég vonaði að nú sæi fyrir endann á kvalagöngu minni.

Undir stýri á bílnum mínum, á leiðinni eftir hraðbraut E47 til Charlottenlund þar sem læknirinn hefur komið sér fyrir, fann ég skyndilega fyrir óvenju sterkri gleðitilfinningu – þeirri kennd sem maður finnur stundum þegar einhverjar sjaldgæfar og óvenju ánægjulegar hugsanir fara í gegnum heilann. Þetta er því miður fátítt en tilfinningin er bæði góð og einstök.

Og hvað gerði mig svo glaðan? Eftir að hafa gruflað eitt andartak í huga mér komst ég að raun um að það væri þrennt sem vakti þessa innilegu hamingjukennd á miðri E47 hraðbrautinni á 130 km hraða. Mörgum kann að þykja – þegar ég tíunda uppsprettu þessarar miklu gleði – ástæðurnar heldur léttvægar. En ég fann að þetta var mér afar mikilvægt og kveikti sterka sælukennd í brjósti mér.

Í fyrsta lagi var ég svo glaður yfir að vera að lesa bók George Saunders um smásögur hinna rússnesku meistara. Sjálfur taldi hann þá visku sem hann miðlar í bókinni stærsta framlag sitt til heimsins og ég skil höfundinn vel. Ekki er allt skemmtilegt í þessari bók en ég finn hvað mér þykir skrif George áhugaverð og þau veita mér óvenju fullnægjandi gleðitilfinningu.

Í öðru lagi hlusta ég á hljóðbók í lestri Anthony Horowitch, sögu Kazuo Ishiguro, The Buried Giant. Bókina hlusta ég á þegar ég hleyp og þegar ég geng göngutúra hér í útkanti Espergærde. Ég segi það satt, að oft og iðulega fæ ég tár í augun í hrifningu minni. Ég er svo innilega snortinn af frásögninni, frásagnarhæfni höfundarins og sjálfum lestrinum. Þannig er komið fyrir mér, og slík er sæluundrun mín yfir skáldsögunni, að ég á það til að nema staðar á göngu minni, stöðva upplesturinn til þess hreinlega að ná andanum af hrifningu.

Í þriðja lagi les ég nú Nýja testamentið af einbeitni og ástríðu. Ég get ekki gert að því en ég er sonur prests, prests sem sinnti starfi sínu og trú af alúð og gleði sem ég ætla ekki að lýsa hér. En þetta var hin sanna gleði. Ég þekki því texta bókarinnar nokkuð vel. Mér finnst ég hafa heyrt allt áður, mörgum sinnum, en samt líður mér eins og ég sé að veiða í hyldjúpu stöðuvatni og draga upp bæði mikinn og fallegan afla.

Um þetta hugsaði ég í bílnum á leið til læknisins Christofers. Og hann tók vel á móti mér, skoðaði olnbogann og stakk svo töfrasprautunni sinni á réttan stað. Hann vonaði að ég ætti eftir að finna fyrir greinilegum bata en ég hitti hann aftur eftir einn mánuð. Nú þegar liðnar eru nokkrar klukkustundir frá því að ég fékk lyfið í olnbogann líður mér satt að segja undarlega. Það er eins og hægri handleggurinn sé lamaður og ekki er laust við að ég finni fyrir svima og kraftleysi. Ég vona að hann hafi sprautað réttu efni inn í kroppinn á mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.