Espergærde. Nú hef ég keypt tæki

Ég er alls enginn sérfræðingur í ritum Platóns eða í samræðum hans við Sókrates. En mér varð hugsað til einnar málsgreinar í samtölum þeirra félaga þar sem Sókrates nefnir að hugsjónafólk eigi til að fyllast megnri mannfyrirlitningu ef það mætir sterkri mótspyrnu. Ég hef stundum orðið vitni að þessu, síðast núna um helgina; bæði hjá þeim sem láta umhverfismál sig miklu varða, kynjamál eða neysluvenjur annarra. Leitin að þýðingu hins góða getur verið þyrnum stráð.

Nú hef ég hlaupið rúmlega sextíu kílómetra í þessum mánuði og allt stefnir í að ég nái eitt hundrað kílómetrum á fyrsta mánuði ársins. Það er fínt og tíminn í morgun var 4:58 pr/km og í gær 4:54 pr/km. Markmiðið er að ná 4:47 pr/km en það var besti tími minn áður en ég meiddist og nú eru örugglega liðin fimm eða sex ár frá því ég hljóp á þeim tíma. En ég eldist og það hægir á manni, því miður.

Og ég get upplýst að ég leyfði mér, eftir nokkurt hik, að kaupa airPods til að hlaupa með. Ég hef notað heyrnartól sem ég erfði eftir Davíð en þau höfðu þann annmarka að ég gat bara hlustað á hljóðbók fyrsta kílómeter hlaups því þá duttu þeir venjulega úr sambandi. Ég hef svo mikla gleði af að hlusta á hljóðbækur á meðan ég hleyp og því fannst mér ég geta réttlætt kaup á airPods. Ég varð gífurlega ánægður þegar heyrnartólin komu í póstinum í morgun og ég sé ekki eftir að hafa leyft mér að kaupa þennan útbúnað þrátt fyrir að ég vilji minnka neyslu mína nánast niður í núll.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.