Espergærde. Nýtt hlutverk

Sennilega er ég orðinn svo óvanur að sjá kvikmyndir – það er langt á milli þess að ég finni myndir sem vekja áhuga minn. Í gærkvöldi þegar ég horfði á HBO-seríuna THE UNDOING, spennuþætti, fann ég að ég varð óþarflega taugaspenntur yfir atburðunum á skjánum. Hjartað barðist í brjósti mér yfir atvikum þar sem leikararnir sýndu með svipbrigðum sínum að þeim leið ekki vel. Kannski er ég orðinn svona meyr eða veiklundaður með aldrinum að ég get ekkert aumt séð.

En ég valdi sem sagt að sjá spennumyndaflokkinn THE UNDOING, þar sem Nicole Kidman og Huge Grant leika aðalhlutverkin. Sagan gerist í New York og þangað hef ég komið nokkrum sinnum og því þykir mér dálítið gaman að sjá kvikmyndir sem gerast þar. En aðalástæða þess að ég ákvað að horfa á þessa þætti var önnur en að New Yorkborg léki þar hlutverk. Fyrir nokkru tók ég að mér að sitja í dómnefnd fyrir Lindhardt og Ringhof forlagið sem hefur hleypt glæpasagnasamkeppni af stokkunum og eru verðlaunin fyrir sigurvegarann óvenju vegleg (5.250.000 ikr.). Í dómnefndinni sit ég ásamt tveimur góðum konum, Lidu Wegel sem hefur staðið fyrir glæpabókamessunni í Horsens og Susanne Bier sem er farsæll kvikmyndaleikstjóri. En það er einmitt hún sem hefur leikstýrt þáttunum THE UNDOING sem ég reyni nú að horfa á – og ef hjarta mitt þolir mun ég horfa á þættina til enda. Mig langaði að sýna væntanlegum samstarfsmanni mínum þá kurteisi að hafa séð eitthvað af verkum hennar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.