Espergærde. Skyrta læknisins

Ég las hugleiðingar konu í gær þar sem hún sagði í stuttu máli frá löngum listferli sínum. Hún hafði skrifað margar bækur, samið nokkur leikrit og henni var margt annað til lista lagt. List sína hafði hún stundað í áratugi. En í hugleiðingum sínum sem „hún skrifar frá þeim staða þar sem hún telur sig endanlega hafa fundið frelsi“ – losnað úr þeirri áþján að þurfa að stóla á aðra, skoðanir þeirra og velvilja – segir hún frá því að hún hafi aldrei kunnað við eða getað kallað sig listamann eða rithöfund. Ég skildi hana vel. Mér er það algerlega ómögulegt að kalla mig rithöfund (og listamann gæti ég aldrei kallað mig) þótt ég hafi álpast til að skrifa tvær frumsamdar bækur og hafi þýtt töluvert margar bækur yfir á íslensku.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég var hjá lækni um daginn til að fá sprautu í olnbogann á mér. Að vísu þótti mér læknisheimsóknin að nokkru leyti misheppnuð. Ég fann svo greinilega fyrir metnaðarleysi læknisins, áhugaleysi hans um þennan sjúkling (mig) sem sat fyrir framan hann og verkjaði nógu mikið í olnbogann til að leita til hans.

Hann ómakaði sig þó við að spyrja þeirra stöðluðu spurninga sem læknar þurfa að spyrja sjúklinga sína. Um leið og hann hóf spurningaromsuna fór hann að afsaka sig og spurningarnar, eins og honum þætti neyðarlegt að læknir sýndi sjúklingi sínum of mikinn áhuga.
„Þetta eru standardspurningar sem ég neyðist til að spyrja,“ sagði hann.
„Allt í lagi. Þú bara spyrð,“ svaraði ég og sýndi hversu fús ég var að eiga góð samskipti við hann.
„Reykirðu? Ertu með ofnæmi? Tekurðu lyf? Einhverjir sjúkdómar? Hversu mikið drekkurðu? Svefn? …“
Öllum spurningunum svaraði ég skilmerkilega.
Og svo bar hann upp síðustu spurningu sína: „Við hvað starfið þér?“
Það kom á mig hik. „Já, við hvað starfa ég?“ svaraði ég að endingu.
Læknirinn leit upp og loks nú vakti þessi langi Íslendingur áhuga hans. Hann horfði á mig og í svipnum var bæði undrun og líka forvitni. Maðurinn mældi mig út eins og hann gæti séð á klæðnaði mínum hvaða atvinnu ég stundaði. En ég var ekki í einkennisbúningi þess sem situr heima og skrifar svo hann gat ekki lesið starfsheitið af fötum mínum. Þó var greinilegt að ég var ekki kominn beint af akrinum eins og bóndi, ataður mold eða dýrahárum. Og svo kom þessi langa þögn þar sem hvorki ég né hann sögðu orð.

Það var eins og hann þrjóskaðist við að endurtaka spurninguna og ég sat og í höfðinu á mér sveimuðu hugsanir um starf mitt, störf mín í fortíð og nútíð og hvers vegna ég gat ekki komið því út fyrir varir mínar að ég skrifað bækur um þessar mundir. Ég virti lækinn fyrir mér. Hann var í dökkgrænni skyrtu sem þrengdi svo að maga hans að gap hafði myndast milli skyrtutalnanna þannig að magafellingar hans þrýstust út. Í huga mér myndaðist þessi staðlaða spurning: „Borðið þér reglulega?“ En ég kom ekki upp orði. Eftir stundarþögn opnaði læknirinn aftur munninn og sagði hægt og skýrt „Við hvað starfið þér?“

Nú átti ég ekki annars úrkosta en að svara hinum læknismenntaða manni sem horfði á mig svo einörðu augnaráði.
„Ég er hjartalæknir,“ sagði ég.
„Hjartalæknir?“ sagði hann hissa.
„Já, einskonar hjartalæknir.“
Ég tók eftir að yfir augu hans færðist skuggi og hann lagði frá sér blokkina þar sem hann skrifaði svör mín og sagði svo. „Jæja, við skulum drífa þessa sprautu af.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.