Espergærde. Meiri áreynsla verri árangur.

Ég furða mig mjög á því að úrið mitt, sem er frá Garmin og getur sagt mér svo margt um hæfileika mína og athafnir, hafi tilkynnt mér síðustu vikur að þrek mitt og form fari dalandi. Ég er mjög hissa. Í þessum mánuði hef ég hlaupið tæpa 90 km og sett hraðamet og langhlaupsmet og ég veit ekki hvað. Þrátt fyrir þetta sýnir Garmin úrið mitt hnignun og dvínandi styrk. Þetta er öfugsnúinn heimur. Því meiri æfingar þeim mun verra er formið! (Sjá mynd)

Svona líður mér eiginlega líka í sambandi við bókaskrif mín. Því meira sem ég reyni á mig og vanda mig því verr gengur. Ég frétti að Fréttablaðið hefði í upphafi árs valið Dularfullu styttuna sem aðra af bestu barnabókum ársins: „Snæbjörn Arngrímsson á eina bestu barnabók þessa árs, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, allavega hlýtur hún að vera sú best skrifaða.“ Auðvitað verður maður glaður að lesa svona vinsamleg orð. Það er einmitt þetta með best skrifaða; allir ritdómarar nefndu þetta með að sjálf skrifin væru í lagi. Sennilega eru lesendur ekki að leita að vel skrifuðum bókum. Sennilega þyrfti ég bara að slappa aðeins meira af, vanda mig minna og skrifa verr til að ná almennilega í gegn með bækurnar. Svona getur maður stundum orðið fúll yfir engu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.