Espergærde. Öfundarviðbrögð

Ég þarf að horfast í augu við að ég er þessa dagana undarlega frústreraður eða svekktur eða hvað hún heitir þessi tilfinning sem herjar á mig og gerir mig óvenju vansælan, ég sem hef svo bjart geð. En nú er ég fullur af einhverri innibældri orku og langar helst til að öskra út í loftið til að leysa hana úr prísund líkama míns. Um þetta hugsaði ég á morgungöngu minni. Að vísu lyfti það geði mínu að ég sá óvenjustórt flutningaskip á hraðsiglingu suður Eyrarsund. Slík sýn finnst mér alltaf jafn heillandi og skemmtileg. Ég vildi að það væri meiri skipaumferð í Hvalfirðinum til að fylgjast með úr mínu góða sumarhúsi.

Já, svekkelsið sem herjar á mig á sér sennilega margar uppsprettur. Ekki geri ég mér grein fyrir öllu sem veldur hinni óbærilegu, kraumandi orku inni í mér. En ég veit þó að öll þessi svakalega innilokun, kyrrstaða og sambandsleysi vegna kórónuveiru hefur vond áhrif á mig. Ég er ekki byggður fyrir þetta, ekki frekar en aðrir kannski.

Ég hugsa um hvað sé til ráða. Hvernig ég komist út úr þessu svekkelsi sem bitnar illa á sjálfum mér og þeim verkefnum sem ég reyni að sinna. Þau verða svo merkingarlaus í mínum huga og þá er ekkert gaman að vinna við þau. Mig vantar meira fjör.

En á morgungöngunni hugsaði ég með mér að ég hlakkaði óskaplega til að nýja bókin hans Ishiguro kæmi út. Klara og sólin. Bókin fjallar víst um hjarta mannsins eins og aðrar bækur höfundarins. Og ég hugsaði líka hvort það væri ekki frábært fyrir rithöfund að einhver sláni í útlegð í Danmörku biði í eftirvæntingu eftir að geta lesið skáldsögu hans. Ég ákvað því að skrifa Ishiguro og senda honum bréf þar sem ég segi honum að eftir sex ára erfiði hans (síðasta bók hans kom út árið 2015) væri að minnsta kosti einn maður í heiminum sem hlakkaði óskaplega mikið til að lesa söguna Klara og sólin, svo mikið að hann teldi niður dagana þar til hún kæmi út. Með þessu bréfi vonast ég til að gleðja Ishiguro og veita enn meiri birtu inn í líf hans. Ég er viss um að Ishiguro er í grunninn ákaflega ánægður maður, (það sama get ég sagt um sjálfan mig), en það breytir ekki því að einlæg uppörvun vekur alltaf gleði hjá hverjum sem er, þótt hann sé glaður þegar kveðjan berst honum.

Ég sá að Hallgrímur Helgason, rithöfundurinn, hælir mjög bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting. Ég var einmitt að byrja á henni í gærkvöldi. Mér þótti ánægjulegt að heyra rödd úr hjarta rithöfundastéttarinnar sem hafði eitthvað gott um Ólaf Jóhann að segja og klappa honum á bakið. Mér hefur þótt sú meðferð sem hann hefur hingað til fengið af áhrifavöldum innan bókmenntanna verið ómakleg og byggð á fordómum og stundum á öfund. Ólafi Jóhanni er margt til lista lagt og þótti kannski mörgum á sínum tíma að Ólafi Jóhanni væri hampað óþarflega mikið af forlagi sínu og hann hefði ekki unnið til þeirrar upphefðar að verða metsöluhöfundur á Íslandi. En það er gott þegar öfund stjórnar ekki lengur viðbrögðum fólks, nóg er um það finnst mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.