Espergærde. Í anda Sigmunds F.

Mér brá satt að segja þegar mér barst bréf í gær frá afar velviljaðri konu sem, eins og ég, býr í útlöndum. Við þekkjumst ekki og höfum aldrei hist. En hún fylgist með mínum daglegu hlaupum á Kaktus. Bréfið hefst á þessum orðum: „Þú hljómar svo dapur þessa dagana að ég ákvað að gleðja þig með því að segja þér að Kaktusskrifin þín eru mikils virði.“

Mikið er þetta góð kona, hugaði ég. En hljóma ég dapur? hugsaði ég. Mér dauðbrá satt að segja. Ég veit að ég á til að dramatísera svolítið á Kaktus bara til að skerpa litaskalann á skrifunum. En ég vil ekki hljóma dapur. Ég er ekki dapur. Ég er glaður, grunnglaður, eins ég kalla ástand mitt. En ég varð aftur á móti mjög snortinn yfir því að þessi ókunnuga kona skyldi gefa sér tíma til að hressa mig við. Það fannst mér sérlega fallega gert.

En það var fleira – ekki bara þessi örláta kona – sem jók bjartsýni mína í gær. Ég átti langt samtal um skáldsskap, ritstörf, kórónakrísu, einangrun og hvaðan maður sækir andagift sína við félaga minn. Ég hef ekki alltaf trú á þessari aldagömlu klisju um að hollt sé að tala um hluti sem angra mann, stundum finnst mér bara betra að þegja mig í gegnum áhyggjur og finna lausn á þeim og öðrum sálarþrengingum í rólegheitunum inni í eigin huga. En þetta samtal var sannkölluð sálarhreinsun, catharsins, í anda Sigmunds og mér var stórlétt.

Og fleiri falleg bréf frá hálfókunnugu fólki síðustu daga hafa fengið mig til að velta fyrir mér, enn á ný, hvers vegna ég skrifa Kaktusinn. Ég hef svo sem oft áður sagt að Kaktusinn sé æfingatæki mitt, leiðin til að skrifa íslensku, skrifa betur, þjálfa skrifvöðvann, halda mér lifandi meðal vina minna sem fylgjast með mér í gegnum Kaktusinn, en ég minnist kannski aldrei á að skrifin eru líka verkfæri mitt til að skilja hvað ég hugsa, hvað ég horfi á, hvað ég sé og hvað þetta allt þýðir. Hvað ég vil og hvað ég óttast. Ég veit þess vegna að mér eiginlega mest í nöp við öfundartal byggt á ógeði á eigin meðalmennsku.

Ég las í gær að Elísabet Jökulsdóttir hefði hlotið íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina sína Aprílsólarkuldi. Hana hef ég því miður ekki lesið. Í flokki barnabóka sá ég að Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fengu verðlaunin fyrir bókina sína Blokkin á heimsenda sem ég hef heldur ekki lesið. Ég keypti bókina í síðustu ferð minni til Íslands og ætlaði að taka hana með mér hingað til Danmerkur en gleymdi henni í bókahillunni í Hvalfirði mér til töluverðrar armæðu. Mig langar mikið til að lesa þessa verðlaunabók og verð væntanlega bara að ná mér í e-bókina því ekki kemst maður til Íslands á næstunni þegar allt er lokað hér – ferðalög bönnuð …

ps. Ég hugsaði um það í nótt, milli svefnkafla, hvað ég væri orðinn vitlaus í kál. Alls konar kál; hvítkál, rauðkál, broddkál, grænkál og eitthvað sem heitir pálmakál. Ég borða orðið húgur af káli í hverri máltíð, hrátt eða steikt, en alltaf með gífurlegu magni af ólífuolíu. Rosalega er ég ánægður með kál. Yo! En í gær prófaði ég að nota aðra ólífuolíu en okkar eigin og ég segi það í algerri einlægni að ítalska ólífuolían okkar er þúsund sinnum betri og kálið náði alls ekki sömu hæðum með þessari spænsku ólífuolíu sem við höfðum fengið að gjöf.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.