Hér með tilkynni ég sjálfum mér og öðrum sem heyra vilja að ég hef náð að hlaupa nákvæmlega 100,07 km í janúarmánuði og ég get – fyrst ég er byrjaður að masa um þetta hlaup mitt – bætt við að hlaupatúrinn í morgun var óvenju tíðindaríkur.
Ég ákvað áður en ég lagði af stað að velja nýja hljóðbók til að hlusta á. Nú er ég búinn að hlusta á The Buried Giant (frábær) og ég hafði síðustu daga reynt að hlusta á Marilynne Robinson á hlaupum en ég fann að bókin hentaði mér ekki á meðan ég brunaði eftir götum Espergærde. Ég náði ekki að einbeita mér að henni og þess vegna valdi ég að prófa að hlusta á bók sem ég er nýbúinn að lesa; Ótti markmannsins við vítaspyrnur (Peter Handke) í stórkostlegum lestri Jóhanns Sigurðarsonar. Mikið er hann makalaust góður lesari hann Jóhann. Ég nýt þess svo sannarlega að hlusta á hann lesa þessa skrýtnu bók á hlaupunum. Eiginlega var mér þetta alveg ný bók – eða nei, kannski ekki alveg – í meðförum Jóhanns. Ég tók meira að segja eftir orðum sem mér þóttu góð eða fyndin eins og ballskák – hvað er ballskák? hugsaði ég og það tók mig augnablik að átta mig á að þetta er íslenska orðið yfir billjard. Orðatiltækin að bræða með sér og smeygja af sér skónum þóttu mér af einhverjum ástæðum skemmtilegt að heyra.
En það var ekki bara gaman að hlusta á flutning Jóhanns á Ótta markmannsins því ég varð fyrir þeirri óvæntu reynslu að rekast á annan markmann á Strandvejen, ekki síður þekktan. Ég tók eftir því að þegar ég nálgaðist hús Peter Schmeichel, sem er stórt og glæsilegt hús og liggur sjávarmegin á Strandvejen, að svartur, glæsibíll keyrði löturhægt út úr innkeyrslunni, út á miðja gangstétt og beið eftir glufu til að beygja inn á Strandvejen. Þegar ég kom auga á bíl herra Schmeichel, sem var að yfirgefa glæsiheimili sitt á glæsibíl, herti ég ferðina. Mig langaði til að skoða markmanninn í návígi. Mér fannst aldeilis við hæfi að ég rækist á gamlan landsliðsmarkmann – frægasta íbúa Espergærde – nú þegar ég hefði söguna um geðsjúka markmanninn í eyrunum.
Ég nálgaðist bílinn og sá að honum mundi ekki takast að smeygja sér inn á Strandvejen áður en ég náði alveg upp að bílnum. Bíllinn fyllti alla gangstéttina. Þetta þýddi að ég þyrfti að gera hlé á hlaupinu því ekki gat ég sjálfur hoppað út á götuna þar sem umferðin var nokkuð þung. Ég sá móta fyrir markmanninum undir stýri og að hann horfði í áttina til mín. Hann gerði sér strax grein fyrir að hann hafði gert mistök með því að nema staðar mitt út á gangstétt. En áður en honum tókst að setja bílinn í bakkgír var ég kominn upp að ökutækinu. Schmeichel lyfti upp höndum í uppgjöf, og í afsökunarskyni, en hreyfingar voru líkari markmanni sem hyggst grípa háa fyrirgjöf. Peter Schmeichel er mjúkklæddur maður, það sá ég í gegnum bílrúðuna, og hann er með óvenju rautt nef. Eftir því tók ég þegar ég horfði á hann með hendurnar á lofti inni dimmu farþegarými bílsins og mér fannst nefið lýsa eins og bremsuljós í myrkrinu. Ég nam alveg staðar.
Þessa dagana eru ekki kjöraðstæður til hlaups. Snjór er á gangstéttum og götum, þar af leiðandi nokkuð hált og veggripið lélegt. Ég næ því ekki að hlaupa hratt. Þegar ég skokkaði inn Søbækvej og framhjá húsinu þar sem unga konan og barnið búa mætti ég þeim mæðgum eins og svo oft áður. Ég er alltaf hlaupandi þegar ég hitti þær og ég er viss um að barnið haldi að hlaup sé minn eini mögulegi ferðamáti; að ég fari allar mínar ferðir á hlaupum.