Árið 1997 gaf Nick Cave, ástralski tónlistarmaðurinn sem á tímabili var búsettur í strandbænum Brighton á Englandi, út hljómplötuna The Boatman’s Call. Hljómlistarmaðurinn hefur margoft sagt frá því að með þessari plötu hefðu textaáherslur hans breyst og textarnir hefðu allt í einu farið að afhjúpa hans eigin tilfinningalíf í stað þess að fjalla um almenna skáldaða hluti, tilbúnar persónur og ímyndaðar tilfinningar. Textarnir á Boatsman’s Call sögðu frá þeim tilfinningum sem hrærðust í huga höfundarins og þeim sálarkvölum sem heltók hjarta hans þetta sama ár.
Eftir að platan kom út fann Cave fyrir einskonar skömm, fannst eins og hann hefði opinberað of margt í eigin fari og fékk óbragð yfir kjánaskapnum og heimskunni að afhjúpa sig á þennan hátt.
Ég segi frá þessu hér vegna þess að ég fékk um daginn skilaboð frá einum af lesendum Kaktussins sem hefur vakið mig til umhugsunar. Í bréfi sínu segir bréfritari meðal annars: „… þú skrifar þar [á Kaktusinn] svo góða blöndu af einlægni og kúlheitum … Það eru fáir sem láta það eftir sér að skrifa opinberlega um tilfinningar og hughrif með þessum hætti án þess að það sé í búningi skáldskapar …“ Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég velti nákvæmlega þessu fyrir mér. Stundum líður mér eins og Cave, ég þekki tilfinninguna sem hann lýsir, að ég hafi verið kjáni og látið of mikið uppi. Eins og maður svamli illa syndur í straumhörðu vatni; maður verður afar brothættur og stutt í vonbrigði þegar maður skynjar viðbrögð sem maður gæti túlkað sem fjandsamleg. Þetta var játning. Yo!
Ég hljóp í morgun og hlustaði áfram á Jóhann Sigurðarson lesa Ótta markmannsins … Enn er mjög hált á götum, víða svellbunkar, og hlaupið sjálft var því engin sérstök ánægja, tíminn lélegur og hlaupið tiltölulega stutt. En eftir að ég var kominn í mark hér við húsið settist ég stutta stund á bekk undir reynitré í frostinu og hélt áfram að hlusta á lesturinn. Og ég hugsaði með mér að þessi bók sé ansi vel þýdd af Franz Gíslasyni. Gaman að heyra af lögreglumönnum sem hlaupa niður veghrygg. Orðavalið virkar ekki á nokkurn hátt sérviskulegt en einhvern veginn tekst þýðanda að láta orð og setningar skína á svo góðan hátt. Ég var að velta fyrir mér hvort þýskan og þýskukunnátta Franz hefði orðið til þess að honum tekst svona auðveldlega að láta vel kunn íslensk orð verða svo skemmtilega gegnsæ og oft glóandi? Ég er að minnsta kosti ánægður með að hlusta, með lesturinn, með bókina og ekki síst með þýðinguna.