Espergærde. Instagram-elskan

Á undanförnum mánuðum hefur danskur rithöfundur, Leonora Christina Skov, náð undraverðum árangri í að safna sér fylgjendum á Instagram og nýta sér þá athygli sem hægt er að fá í gegnum þennan sterka samfélagsmiðil. Fylgjendum hennar birtist reglulega uppfærsla á Instagram þar sem hún segir frá hvernig bókaskrif ganga, sendir myndir frá skrifstofunni, myndir úr fyrirlestraferðum, rannsóknarleiðöngrum, og birtir þar líka hugleiðingar um sjálft skrifferlið … Fyrir tveimur árum gaf höfundurinn út bókina Den, der lever stille, sem fjallar um uppvöxt höfundarins hjá foreldrum sem henni fannst ekki veita henni nægan kærleik eða viðurkenningu. Þessi bók tilheyrir flokknum mín ömurlega æska og er frekar vinsæl bókmenntagrein hér í landi. Bókin var vart komin upp í hillur bókabúðanna þegar fylgjendur Leonoru flykktust af stað til að kaupa bókina. Þeir voru ólmir í að lesa afurð höfundarins eftir hið áralanga strit hennar sem Instagram-vinir höfðu haft mikla ánægju af að fá að fylgst náið með; jafnvel taka þátt í vangaveltum og efasemdum höfundarins. Bókin varð mikil metsölubók.

Nú er væntanleg ný bók eftir Leonoru, Hvis vi ikke taler om det. Sú bók mun víst gera upp við það óþægilega kynferðislega áreiti sem Leonora Christina Skov telur viðgangast í hinum danska forlagsheimi. Á Instagram fyrir nokkrum dögum birti höfundurinn mynd af sjálfri sér – til sýnis fyrir 44,300 fylgjendur – og tilkynnti þar að hún hefði skilað handritinu að nýju bókinni til baka til forlagsins eftir að hafa farið yfir athugasemdir ritstjóra bókarinnar. Hún var þreytt og bað fylgjendur sína að mæla með afþreyingu fyrir úrvinda rithöfund. Bókin væri sem sagt á leið í prentun. Og í sömu færslu tilkynnti hún að bókin kæmi í bókabúðir eftir þrjá mánuði.

Hér er mynd af rithöfundinum, Leonoru Christine Skov, í eldhúskróknum þar sem hún skrifar meistaraverk sín. Þessa mynd er tekin af Instagram.

Og nú kemur rúsínan í pylsuendanum: Í gær birtist metsölulisti vikunnar – sömu viku og Leonora tilkynnti að bókin væri á leið í prentun – í hinu virðulega dagblaði Politiken og viti menn bók Leonoru Christine Skov er númer 1, numero uno, þótt bókin sé ekki enn farin í prentun og þremur mánuðum áður en bókin kemur í bókabúðir. Fyrirframpantanir hrannast inn á bók þessarar Instagram-elsku. Kannski íslenskir rithöfundar, sem óska að nýta sér árhrifamátt Instagram til að ýta undir sölu á eigin bókum og efla vinsældir persónu sinnar ættu að kynna sér aðferðir Leonoru Christine Skov?

Ian McEwan, breski rithöfundurinn og Íslandsvinurinn, fékk á síðasta ári tölvubréf þar sem hann var beðinn að senda handritið að bók sem hann er að ljúka við. Ian McEwan sá ekki betur en pósturinn kæmi frá umboðsskrifstofu sinni í London, RCW Litarary Agency. Hann furðaði sig nokkuð á þessu bréfi en það var undirritað af konu sem hann vissi að væri aðstoðarkona umboðsmannsins. Hann sendi handritið. Þegar hann nokkrum vikum síðar spurðist fyrir á umboðsskrifstofunni hvað gera ætti við handritið komu þar allir af fjöllum. Enginn á stofunni kannaðist við að hafa beðið um handritið hans. Þessa sömu sögu segir Margaret Atwood, Jo Nesbø, Ethan Hawke … Fjöldi þekktra höfunda og óþekktra hafa orðið fyrir barðinu á þessum handritaþjófum sem virðast vita hvað þeir eru að gera. Allur talsmáti í tölvupóstunum ber vott um að þeir þekki orðatiltæki og orðanotkun sem notuð eru í forlagsbransanum, þeir þekkja vinnulag í forlagsheiminum, þeir nota rétt nöfn umboðsmanna og aðstoðarmanna þeirra í svindli sínu. En það merkilega er að enginn veit hvað svindlararnir, sem hafa stundað iðjuna í þrjú ár, gera við handritin. Höfundar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Ítalíu, Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Frakklandi hafa sent handritaþjófunum handrit sín að nýjum óbirtum bókum og eldri bókum.

Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan, bæði á internetinu og hinu svokallaða myrkraneti, eru handritin hvergi til sölu, höfundarnir eru ekki kúgaðir til að borga fyrir að handritin verði ekki birt á vefnum og enginn virðist nýta sér handritin á nokkurn hátt sér til efnahagslegs framdráttar. Handritin hverfa bara út í tómið og öllum er hulið hver standi á bak við þessar aðgerðir og til hvers handritin eru notuð.

ps. Hlaupatíminn var æðislegur í morgun. Yo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.