Espergærde. Að fanga mannsins geð í aðeins sautján atkvæðum er mjög erf …

Þessa dagana les ég bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, sem fékk þennan líka fína meðvind vikurnar fyrir jól. Ég man að ég las bæði og heyrði orðið meistaraverk notað yfir bókina. Það er því með nokkurri eftirvæntingu sem ég geng inn fyrir dyr sáldsögunnar. Ég tek það fram að ég nýt þess að lesa bókina og það dregur væntanlega til tíðinda innan skamms því ég er á síðustu síðum sögunnar.

Það er margt sem gleður mig við söguna, sérstaklega tengslin við Japan og ferð aðalpersónunnar og sögumannsins til Japans og ferðalag hans innan landsins. Ég hef sjálfur ferðast víða um Japan mér til mikillar ánægju og því vekur ferðalagið í bókinni sérstakan áhuga hjá mér. Eins finnst mér gaman að hækuskáldskapnum í bókinni. Ekki vegna þess að hækurnar séu svo gífurlega áhrifamiklar heldur minna hækurnar mig á þann góða tíma þegar hækur voru í tísku á Íslandi eftir að Bjartur gaf út þýðingar Óskars Árna Óskarssonar á japönskum hækumeisturum eins og Issa og Basho. Skugginn í tebollanum, fyrsta hækubókin sem kom út hjá Bjarti varð töluvert vinsæl og ég held að hún hafi jafnvel verið prentuð í tveimur upplögum. Að minnsta kosti seldist bókin upp.

Þessi hækudella sem á tímabili greip þjóðina (eða hluta þjóðarinnar er kannski réttara að segja) fór nokkuð í taugarnar á sumum og ég man eftir skemmtilegri grein þar sem Hallgrímur Helgason skrifaði um áhrif hækunnar á íslenska ljóðagerð í grein sem hét, ef ég man rétt, Ljóðið er halt og gengur með hæku. Hallgrími þótti vængjasláttur fiðrilda og lognsælar sléttur væru farnar að skipa allt of háan sess í íslenskri ljóðagerð. Hvað varð um storma, salt brim og sultardropa?

Ég læt hér með að lokum fylgja ágæta hæku sem segir allt sem segja þarf um hækugerð, ljóðagerð eða bara um meðferð orða.

To con-vey one’s mood 
In sev-en-teen syll-able-s
Is ve-ry dif-fic

ps þegar ég fór á fætur í morgun hélt ég að ég hefði vaknað til mánudags og fyrstu klukkustund dagsins undirbjó ég mánudag í huganum með öllum þeim skyldum sem mánudegi fylgir. En þegar ég kom niður, Sus var vöknuð og komin á ról, var sunnudags dagblaðið á eldhúsborðinu það fyrsta sem ég rak augun í og það tók mig augnablik að skilja að í dag er sunnudagur en ekki mánudagur. Furðulegt hvað það kollvarpaði innstillingu hugans.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.