Það þóttu nokkur tíðindi í síðustu viku þegar tilkynnt var að hinn 34 ára gamli knattspyrnumaður Hulk hefði snúið aftur til Brasilíu til að ljúka fótboltaferlinum í heimalandinu en hann hefur undanfarin ár verið á mála hjá kínverska fótboltafélaginu Shanghai. Þegar slíkir kappar skipta um félag eru töluverðir peningar fluttir á milli landa. En það voru ekki peningarnir sem vöktu áhuga minn né hvar Hulk borgar skatta sína heldur tengsl þessa brasilíska trölls við bandarísku teiknimyndahetjuna sem Marvel verksmiðjan skapaði árið 1962.
Ég hugsa stundum um hvernig hægt sé að tengja fótbolta og bókmenntir (tvö mikilvæg áhugamál) en kemst aldrei neitt áfram með þær vangaveltur. Kannski var það samt kveikjan að spurningunni sem sótti á mig af hverju Hulk væri kallaður Hulk? Ég las Hulk-myndablöð (bókmenntir) þegar ég var lítill en þótti samt aldrei neitt sérlega mikið til hans koma, Batman og Superman voru miklu áhugaverðari.
Ég fékk svarið nær samstundis og ég bar upp spurninguna; kallaði til almættisins og svarið kom. „Hulk er kallaður Hulk vegna þess hve mjög hann líktist leikaranum Lou Ferrigno sem lék Hulk í samnefndri sjónvarpsseríu sem sýnd var á árunum upp úr 1970.“

