Espergærde. Ólafur Jóhann og Stephen King.

Hó. Um helgina kláraði ég bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, metsölubók ársins 2020 á Íslandi. Þetta er fljótlesin bók og aðgengileg í alla staði, textinn áreynslulaus og sagan flýtur áfram án þess að lesandinn rekist á fyrirstöðu á ferð sinni í gegnum bókina. Ég skil vel að þessi saga höfði til margra. Versti fjandmaður bókarinnar eru þær væntingar sem búið er að byggja upp. Fyrir mann eins og mig sem hefur heyrt fleiri en einn tala um að bókin sé meistaraverk, hefur væntingaskrúfan verið sett upp í hæstu nöf. En Ólafur kann sitt handverk og tekst að skrifa hugljúfa ástarsögu – eins og sagt er um bækur sem renna í hægum byr í gegnum hugann. Ég viðurkenni að ég var ekki alveg upp í þakrjáfri af hrifningu en mér finnst Ólafur geti verið stoltur af verki sínu. Honum tekst það sem hann ætlar sér og gerir það vel.

Ég las viðtal við Ólaf sem tekið var í tilefni útgáfu bókarinnar og þar staldraði ég aðeins við þegar skáldið segist aðeins hafa verið fimm mánuði að skrifa bókina. Hún hafi runnið fyrirhafnarlaust úr pennanum. Í tilefni af þessum orðum fór ég að hugsa um Stephen King og afköst hans á ritvellinum. Nú er enn ein 526 síðna bók komin út eftir höfundinn. Billy Summer. Stephen King, sem verður 74 ára gamall í ár, hefur skrifað 61 skáldsögu (og selt meira en 350 milljónir bóka). Ég hef útgefið bækur hans bæði í Danmörku og í Noregi og helsti vandi útgefanda hans eru þessi gífurlegu afköst. Forlagið hefur ekki við. Varla er búið að þýða nýja bók eftir hann og senda í prentsmiðju þegar næsta handrit er tilbúið frá hans hendi. Hann er yfirleitt hraðvirkari en þýðendur bókanna. Þetta verður einhvern veginn of mikið.

Ég hef ekki hitt Stephen King en ég hef verið í bréfasamskiptum við hann og líka við umboðsmann hans. Það eru sérkennilegir félagar. En þegar Stephen King var spurður út í þessi ótrúlegu afköst og hvernig honum tækist að koma svona miklu í verk svaraði hann í fjórum liðum.

  1. Ekki bíða eftir að andinn komi yfir þig – komdu þér að verki.
    „Amatörar bíða eftir að andargiftinni, við hin setjumst bara niður og vinnum,“ skrifar hann á einum stað í bókinni sinni On Writing. „Ég reyni að skrifa tíu síður á dag, það eru um það bil 2000 orð. Eftir þrjá mánuði hefurðu skrifað 180.000 orð sem er ágæt lengd á bók – minnsta kosti nógu löng til að lesandi geti gleymt sér í. Það er að segja ef sagan er vel sögð og er fersk.
  2. Maður skal vinna á sínum eigin hraða.
    Í viðtali við  The New York Times (dagblaðið ameríska) þar sem blaðamaður spyr hvort að rithöfundur geti verið of afkastamikill svarar King: „Þegar ég var ungur maður var höfuðið á mér eins og fullur bíósalur þar sem einhver hefur hrópað ELDUR! og bíógestirnir berjast við að komast í átt að útganginum. Ég hafði milljón hugmyndir en bara tíu fingur og eina ritvél. Í mínu tilviki er frjósemin óhjákvæmileg.“
  3.  Veikleikar eru til að yfirvinna. Ekki missa móðinn við slæma gagnrýni.
    Eitt sinn var King spurður af lesanda sínum hvað hann gerði til að yfirvinna veikleika sína og King svaraði: „Við skriftir er eina leiðin til að takast á við veikleika sína er að einangra þá. Maður verður að lesa eigin verk með ákveðnum kulda. Nota kalda augað eins og ég kalla það.“
  4. Skrifaðu og skrifaðu. Lestu og lestu.
    Stephen King skrifar frá klukkan átta á morgnana til klukkan tólf á hádegi. Frá klukkan eitt les hann (verk annarra) til klukkan fimm. Svo er frí. „Maður verður bara betri til að skrifa ef maður skrifar mikið. Og ekki vanmeta það að lesa aðra höfunda, bæði sögur og ljóð. Það eru til margir góðir pennar í heiminum.“

ps. Terézia Mora, ungverski rithöfundurinn sem sendi frá sér smásagnasafnið Tíu ástarsögur fyrir nokkrum árum sannfærði mig um það sem ég vissi: að ég hefði það ansi gott. Líf mitt væri dans á rósum.
„Að skrifa, fara í göngutúr, sofa, það er gott líf.“ – Terézia Mora

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.