Espergærde. Einstök óhamingja hverrar óhamingjusamrar fjölskyldu

Markmið listamannsins er ekki að leysa vandamál heimsins heldur að stuðla að því að fólk elski lífið í öllum sínum óendanlegu myndum. Þetta segir Leo Tolstoj og ætli þetta ætti ekki líka að vera markmið járnsmiðsins þegar hann sveigir járnið í fagra boga.

En ég nefni þetta hér þar sem ég er kominn á bólakaf í bók Leo Tolstoj, Anna Karenina. Margir halda því fram að þetta sé mesta og glæsilegasta skáldverk allra tíma. Tolstoj sjálfur kallaði þetta sína fyrstu sönnu sögu. Slík verk verður maður að þekkja, sérstaklega þegar maður sjálfur þykist vera að skrifa sannar sögur. Ég á að minnsta kosti ekkert erindi í að leysa vandamál heimsins. Það eru nógu margir tilbúnir að benda á bölin og ekki ætla ég að fylla þann flokk ef ég kemst hjá því.

En Tolstoj gleður mig og ég verð örugglega betri og færari til að elska þegar ég er búinn með allar 883 blaðsíðurnar. Áður en ég hóf lesturinn vissi ég til dæmis ekki að flestar lykilsenur í bók Tolstojs, sem sagt Önnu Kareninu, gerast í lest eða á lestarstöð. Lestir og lestarstöðvar eru svo stórfengleg svið.

En þvílíkt haf af persónum er í bókinni og til að skilja hver er hvað þarf maður að styðjast við tengslakort sem útgefandi bókarinnar hefur útbúið annars drukknar maður í persónuhafinu. Allar hinar hamingjusömu fjölskyldurnar líkjast hver annarri en allar óhamingjusömu fjölskyldurnar eru óhamingjusamar á sinn einstaka hátt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.