Espergærde. Skilaboð langt að.

Ég leyfi mér að tala um Ljóðabréf sem mér barst í gær í póstinum, umræðuefni sem er bannað eða óleyfilegt; eða svo segir í orðsendingu sem fylgdi bréfinu. Ég hunsa bannið. Það er margt bitastætt í Ljóðabréfi nr. 3 – þótt ég vilji ekki gera einu skáldi hærra undir höfði en öðru – en ég gladdist mjög yfir að sjá nafn Péturs Gunnarssonar í öndvegi. Ég kann vel við Pétur og byrjaði strax að lesa ljóð hans um fallna frægð, um mikilmennin sem eru grafin í kirkjugörðum borganna. Ég náði ekki að lesa annað eða meira en akkúrat þetta ljóð – ég var truflaður – þótt ég hafi tekið eftir að Ljóðabréfið var troðfullt af frægum skáldum: Ófeigi Sigurðarsyni, Hallgrími Helgasyni, Arndísi Lóu Magnúsdóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Hauki Ingvarssyni, Eiríki Guðmundssyni, Jóni Kalman, Sigurlínu Bjarneyju, Kristínu Ómarsdóttir, Louise Glück … (nú tel ég bar upp nöfn eftir minni) og með ljóð Péturs í huga rambaði ég í morgun niður í kirkjugarð smábæjarins míns.

Það er ansi kalt hér í litla bænum, mínus sex gráður sem verka á mig eins og mínus sextíuogsex gráður. Kannski er það rakinn. Þegar ég var kominn niður í kirkjugarð – fimmtán mínútna gönguferð – og ráfaði á milli leiðanna og reyndi að finna einhvern frægðarmann sem lág grafinn undir einum af hinum fjölmörgu krossum kirkjugarðsins fann ég að ég var alveg dofinn í andlitinu. Kuldinn. En ég kom satt að segja ekki auga á neinn frægðarmann – ég vissi að ég myndi hvorki finna hér grafir Jim Morrisson, Doris Lessing eða Søren Kirkegaard því þau eru grafin í París, London og Kaupmannahöfn. Kirkjugarðsvörðinn sá ég ganga í grænni kuldadragt á milli leiðanna og ákvað ég að stefna til hans til að spyrja hver væri þekktasti einstaklingur sem grafinn væri í Espergærdekirkegård. Bara orðið „Espergærdekirkegård“ er erfitt í framburði fyrir útlending en þegar frostið hefur lamað andlitið er nærri því ómögulegt að koma orðinu óbrengluðu út út sér. Og því varð samtal okkar kirkjugarðsvarðarins vængbrotið frá upphafi.

„Gætuð þér bent mér að þann einstakling, grafinn í „E-sper-gærde-kirke-gård“, sem telst frægðarmaður?“
„Ehhh hvað segið þér?“
Ég endurtók spurninguna, umorðaði örlítið og hikstaði á orðinu „E-sper-gærde-kirke-gård“ enda andlitið gersamlega dofið og varirnar frosnar í opinni stellingu og mér ómögulegt að loka munninum eða hreyfa varirnar að neinu viti.
„Fyrirgefið þér en ég skil ekki hvað þér segið.“
„Allt í lagi, ekkert mál, skiptir ekki máli.“
„Þetta skildi ég heldur ekki,“ sagði hann, flissaði vandræðalega og hallaði eyranu að mér, eiginlega alveg upp í andlitið á mér og ég sá hvernig þéttur hárbrúskur, með löngum hárum, gægðist upp …. grrrr… ég bandaði frá mér höndunum og baðst vægðar. „Det var ikke noget!“ hrópaði ég inn í þessi kafloðnu eyru og gaf alveg upp á bátinn hugmyndina um að leita að minnisvarða um frægð hér í kirkjugarði heimabæjar míns

Ég spæni í mig Anna Kareninu, Leo Tolstoj, og skemmti mér vel. Alltaf verður mér, þegar ég les, hugsað til orða Leo þegar hann segir að þetta sé fyrsta sanna bókin sem hann hafi skrifað. Ég kann svo vel við fólk sem segir eitthvað satt. Mig langar líka til að segja eitthvað satt.

Mig dreymir pabba minn nótt eftir nótt. Ég hef mjög velt vöngum síðustu daga um hvers vegna mig dreymir pabba minn svona ákaft. Ég gekk svo langt í vangaveltum mínum að ég fór að hugsa hvort hann væri að reyna að senda mér skilaboð. Ég veit ekki hver þau skilaboð ættu að vera önnur en að segja eitthvað satt. Þeim hefur hann þegar komið á framfæri meðan hann lifði. En skilaboð að handan, skilaboð frá þeim dánu, spírtismi, eins og hann kallaði þetta tal, nei. Slíkar hugmyndir þóttu pabba mínum óviðkunnanlegar svo ég hef ýtt þessari hugmynd um skilaboð frá mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.