Fyrir nokkrum mánuðum, ja kannski fyrir tveimur árum, fór ég í bíó í næsta bæ við Espergærde. Þar er pínulítið sveitabíó en í anddyrinu er hægt að kaupa popp og kók áður en maður sest inn í litla bíósalinn. Þetta kvikmyndahús er frekar vinsælt hér um slóðir og margir vilja leggja sitt af mörkum til að halda lífi í því og telja að tilvist kvikmyndahúss í litlum bæ auki lífsgæði íbúanna. Það held ég að sé alveg rétt.
Kvikmyndin sem ég fór að horfa á var ekki nein Hollywood mynd heldur einskonar documentar-kvikmynd um gamla konu sem bjó ásamt blindri og ævagamalli mömmu sinni í hrörlegum hýbýlum langt uppi í hinum Makedónísku fjöllum. Hún var býflugnabóndi þessi gamla kona og hunangið seldi hún á markaði í litlum bæ. Þangað gekk hún þegar hún hafði safnað nógu miklu hunangi. Það tók hana heilan dag að ferðast fótgangandi fram og til baka.
Þetta var falleg kvikmynd og hrífandi. Sennilega get ég notað orðið ógleymanleg og við Sus töluðum um, eftir kvikmyndasýninguna, að við ættum einhvern tíma að fara í ferðalag til Makedóníu og kynnast þessu fátæka landi.
Ekkert hefur enn orðið af ferðalagi okkar. Því miður. En í gærkvöldi barst mér bréf. Ég var komin upp í rúm með Önnu Karenínu og las mér til ómældrar skemmtunar um komu Önnu á lestarstöðina í Moskvu eftir ferðalag frá Skt. Pétursborg. Ég les oftast e-bækur á kvöldin og því þarf ég ekki að hafa kveikt kvöldljós. Allt er slökkt og dauf birtan frá iPadinum lýsir upp herbergið. Ró er komin yfir heiminn. Og mitt í þessari kyrrð birtst tölvupóstur á skjánum hjá mér um að bókaforlag í Makedóníu hafi áhuga á að semja um útgáfurétt á bók sem ég skrifaði: Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins.
Gleði mín var, eins og oft áður, kannski ekki í samræmi við tilefnið. Hjartað fór á harðabrokk; það barðist um í brjóstinu á mér og ég gladdist svo innilega yfir að kannski komi bókin mín út í þessu fjallalandi í suðri. Ég var svo sæll og ímyndaði mér allt mögulegt um bókina mína í höndum framandi fólks, framandi barna í landi langt í burtu. Og ég hugsaði að kannski sé þarna komið tilefni til að heimsækja land og þjóð. Svona reikaði hugurinn ég og gat alls ekki fest svefn fyrr en seint og um síðir.
Ps ég hljóp óvenjulangt í morgun. Þrátt fyrir töluvert frost og kaldan vind úr norðaustri gat ég bara ekki hætt að hlaupa. Ekki var ský á himni og birtan við Eyrarsundið – sólin var ekki hátt á lofti yfir Svíþjóð – var svo töfrandi falleg. Flutningaskipin, sem sigla eins og í logandi hafi suður og norður Eyrarsundið, eru glæsilegar skuggamyndir í þessari mótbirtu.