Espergærde. Óþarfa áhyggjur

Nú er kominn mánudagur og ég skrifaði ekki orð í dagbók mína um helgina. Ekki vegna tímaskorts – nægur var tíminn – heldur vegna einhvers skorts á vilja. Í mér var mótvilji, kannski var ég eitthvað fúll út í sjálfan mig eða heiminn. En ég skrifaði ekki staf. Eins furðulegt og það kann að hljóma hafði ég áhyggjur af þeim sem daglega lesa Kaktusinn og gripu í tómt tvo daga í röð. Ég sannfærði mig þó um að þeir mundu væntanlega lifa Kaktuslausa helgi af og að ég skyldi ekki hafa áhyggjur. Yo!

Í stað þess að nota tímann yfir dagbókarskrifum, hljóp ég og gekk langa göngutúra um helgina. Hér er ansi kalt, níu stiga frost og vindur úr norð-austri. Níu frostgráður á þessum slóðum eru mun kaldari, það er mín tilfinning, en sömu mínusgráður á Íslandi. Mér fannst svo kalt að ég hljóp með vettlinga, sennilega í fyrsta skipti á ævinni.

En ég las líka. Ég held áfram að lesa hina ægilega löngu Önnu Karenínu. Þvílík skemmtun sem það er að lesa þessa skáldsögu. Og ég las gott viðtal við Geir Gulliksen, norskan rithöfund, sem nýtur töluverðra vinsælda bæði hér í Danmörku og í heimalandi sínu Noregi. (Og sennilega í fleiri löndum). Geir skrifar núna skáldsögur en á sjálfur fortíð sem forleggjari hjá Oktober Forlag í Noregi. Hann varð nokkuð þekktur fyrir að gefa út bækur Karl Ove Knausgaard. En nú einbeitir hann sér að skáldsagnaskrifum og fjalla bækur hans mjög um samskipti kynjanna. Í viðtalinu sem ég las verður Geir tíðrætt um hvað hann hafi fengið sig fullsaddan á að tala um kyn; karla og konur og alla þá einsleitu umræðu sem honum finnst vanta alla núansa. Hann vill miklu heldur tala um það sem gerir okkur að manneskjum.

Ég var feginn að heyra þetta viðhorf hjá Geir Gulliksen. Að horfa á allt og alla út frá kyn-sjónahorni finnst mér ekki sérlega gefandi eða leiða til framfara.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.