Ég hef svo gaman af lýsingum Tolstojs á því þegar persónur í Önnu Karenínu ganga hljóðlaust í gegnum stofur, og koma öllum á óvörum, vegna þess að teppin á gólfunum eru hnausþykk. Ég kann svo vel við þetta.
Ég þekkti einu sinni forleggjara sem átti heima í Grjótaþorpinu. Hann var kulvís og klæddi sig því alltaf í þykka ullarsokka þegar hann kom inn úr dyrunum. Síðan leið hann hljóðlaust um parketgólf hússins og lék að hann væri draugur eða vofa. Enginn heyrði þegar hann hreyfði sig eða sveif á ullarsokkunum á milli herbergja.
Ég verð líka glaður þegar persónurnar hjá Tolstoj fá spælt egg að borða því það vekur alltaf þvílíka gleði. „Spælt egg, ó, mitt uppáhald,“ hrópa þær (persónurnar) og smjatta þegar vínin frá Kiev eru borin fram. Ekki vissi ég að vín frá Úkraínu hefðu verið í slíkum metum hjá Rússum.
Þetta er mín bókmenntafræði: Spæld egg, upprunaland vína og ullarsokkar í bókmenntum.
Ps. Í morgun sló ég langhlaupsmetið mitt í ár! Hlaup er það sem gengur best hjá mér þessa daga.
pps. Hörkufrost er hér í Danmörku og sjórinn við ströndina hefur breyst í þykkan ísgraut