Espergærde. Allt sem er elskuvert … hugfestið það

„Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, og vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði … af orðum þínum muntu verða réttlættur, og af orðum þínum muntu verða sakfelldur.“

Svona hefjast morgnarnir hjá mér um þessar mundir – það er að segja eftir morgungrautinn – með lestri á eldgömlum texta. Orðin fylgja mér stundum inn í daginn … stundum, ekki alltaf, því það kemur fyrir að ég man ekki mínútunni lengur hvað ég les.

Eins skrýtið og það nú er, vaknaði ég í svo furðulegu ástandi í morgun að ég þurfti að rifja upp hvað ég héti. Ég lá og reyndi að átta mig og nafnið kom hægt og rólega til mín. Snæi minn, þetta ert bara þú, hugaði ég og rýndi út í morgunmyrkrið. Mig hafði dreymt svo ákaflega, þungt og raunverulega að það tók mig nokkra stund að flytja mig á milli heima.

Og ég fór að hugsa um ljósmynd sem bróðir minn sendi mér fyrir nokkrum dögum, gamla mynd af sjálfum mér fimm ára gömlum þar sem ég sat uppi í rúminu sem ég svaf í sem barn. Ég hafði ekki séð þessa mynd áður og þarna undir sænginni fór ég að velta fyrir mér hvort þetta sakleysislega barn – sem horfir góðtrúandi á ljósmyndarann – hefði verið elskuvert.

ps. Nú þegar ég skrifa orðið elskuvert verð ég óöruggur og fer ég að hugsa hvort orðið sé til á íslensku. Er ég orðinn smitaður af dönsku „elskværdig“? Nei, auðvitað er orðið til á íslensku. Samanber: „allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar … hugfestið það.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.