Espergærde. Háværi maðurinn

Þegar ég sit hérna uppi í mínu fína herbergi þar sem ég hef aðstöðu bæði fyrir tölvu og hátalara berast mér jafnan hljóð ( það liggur við að ég segi óhljóð) frá manni sem býr í gulu húsi neðar í götunni minni. Ég kalla hann háværa manninn. Honum liggur óvenjuhátt rómur og svo á hann tvö börn sem hann kallar látlaust á.
„Sebastian! Sebastian!“ eða „Louise! Louise!“

Nú er allt lokað í Danmörku og háværi maðurinn vinnur heima og hefur gert síðustu vikur og ég er satt að segja alveg að ærast á köllum hans. En í morgun sá ég að háværi maðurinn stóð úti á tröppum og hallaði sér upp að súlu sem ber uppi hálfþakið fyrir ofan innganginn að húsinu hans. Aldrei þessu vant heyrði ég ekki múkk í honum. Af og til leit ég út um gluggann frá herberginu mínu og alltaf hékk hann þarna utan í súlunni við innganginn. Ég tók upp sjónauka sem ég á og beindi honum að manninum til að sjá hvað hann væri að gera. Af hverju hrópar hann ekki? Ég sá ekki betur en hann héldi á einhverju mælitæki í hendinni og á litlum, gulum blýanti. Í andliti hans gat ég lesið djúpa einbeitingu. Næst þegar ég hitti háværa manninn ætla ég að reyna að komast að því hvað hann er að sýsla með þetta mælitæki.

Ég keypti mér nýjar bækur í gær. Ég hafði lesið viðtal við ungan rithöfund sem ég hef miklar mætur á og hún nefndi í viðtalinu að hún læsi Tarjei Vesaas aftur og aftur, og oft á á ári. Hún kæmist alltaf í svo upphafna stemmningu þegar hún læsi bækur norska skáldsins. Með bókinni Fuglarnir telja margir að Vesaas hafi náð hátindi sínum og þá bók ætla ég að byrja á að lesa. Knausgaard kallar bókina bestu skáldsögu sem skrifuð hefur verið á norsku og Judith Hermann (sem skrifar eftirmála að útgáfunni sem ég hef fengið í hendurnar) er innilegur aðdáandi skáldsins. Það er því kominn tími til að kynna sér þennan norska skáldjöfur, hugsaði ég. En ég keypti líka Stríð og frið, hinn múrsteininn sem Tolstoj skrifaði. Þegar ég er búinn að lesa um Önnu Karenínu ætla ég að lesa Stríð og frið. Annars langar mig líka að lesa Endastöðina um síðustu daga Tolstojs. Ef það tæki mig ekki svona langan tíma að lesa eina bók!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.