Í góðviðrinu í gær ákvað ég að taka þátt í æfingardagskrá Núma sem æfir fyrir að ganga með vinum sínum 100 km á einum degi; frá Køge til Helsingør. Það er víst þrekraun, bæði fyrir fætur og hné en ekki síst andleg þrekraun. Þetta hef ég lesið í skýrslum þeirra sem hafa reynt þetta.
Í gær gengum við saman 23 km í kringum Furesø. Allt gekk vel og maður var aðeins lúinn eftir gönguna, svolítið aumur undir iljunum þar sem skórnir sem ég gekk í voru kannski ekki sérlega góðir fyrir langgöngu en það sem kom mér óvart var hausverkurinn sem ég fékk í nótt, sennilega vegna vökvataps. Ég drakk sennilega ekki nóg í gær og ég vaknaði um miðja nótt með þvílíkan hausverk að ég hef held ég bara aldrei prófað neitt í líkingu við þessa pínu.
Í dag ætlar Númi að ganga 35 km en ég held að ég láti bara 10 km nægja í dag.
Um þessar mundir les ég smásögur Tsjekhovs (meðfram lestrinum á hinni frábæru Önnu Karenínu). Ég fer í gegnum smásögurnar undir leiðsögn Georges Saunders sem hefur síðast liðinn áratug greint og rannsakað þessar sögur af verkfræðilegri nákvæmni. Ég hef alveg sérstaklega gaman af þessu.
ps. Og ég hlakka til fótboltaleiks í dag. Ég er farinn að fylgjast fótboltaliðinu Brentford af töluverðum áhuga. Félagið sem hefur heimavöll sinn í suðvesturhluta London er í eigu sérkennilegs manns sem hefur auðgast á tölfræðikunnáttu sinni. Hann hefur nýtt sér þekkingu sína á stærðfræði- og tölfræðigreiningum til að selja gögn til veðmálsfyrirtækjanna (Bet365, Betfair, Betson …) Á þessum viðskiptum hefur hann hagnast svo mjög að hann ákvað að kaupa fótboltafélag og beitir aðferðum stærðfræðinnar til að kaupa, selja og þjálfa leikmenn. Og nú er Brentford í efsta sæti 1. deildarinnar (sem er næst besta deild) í Englandi. En það er ekki nóg með að hann eigi fótboltafélagið heldur hefur hann þessi stærðfræðinörd sett á laggirnar allskyns aðgerðir í tengslum við fótboltaliðið til að bæta samfélagið í Brentford; tekið atvinnulausa upp á sinn arm, skipulagt námskeið, stutt skólana á svæðinu og svo framvegis …