Espergærde. Gömul samtöl

Það snjóaði í nótt. Allt var hvítt í morgun; tré og tún og gangstéttirnar svo sleipar að ég nennti ekki að hlaupa. Hlaupaskórnir eru gatslitnir og rennsleipir. Þess í stað ákvað að ganga 7 km langan göngutúr. Á göngunni hafði ætlað að hlusta á samtal Árna Sigurjónssonar og Örnólfs Thorssonar við Hannes Pétursson frá árinu 1986. En ég hafði gleymt að hlaða símann minn áður en ég lagði af stað svo ekkert varð af því að ég hlustaði á viðtalið. Það bíður betri tíma.

Þetta gamla sjónvarpsviðtal við skáldið Hannes fékk ég sent seint í gærkvöldi frá einum af mínum góðu velunnurum. Mér þótti það sérkennileg tilviljun að ég fengi akkúrat þessa sendingu, upptöku af viðtali við skáld, því í gærkvöldi hafði ég horft á langt viðtal við annað skáld, Henrik Nordbrandt sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2000. Þetta var stórskemmtilegt viðtal við skáldið sem var svo seinlæst og þjakað af ægilegu einelti þar til hann varð 14 ára gamall. Henrik er nú orðinn gamall maður og aldurinn veitir honum frelsi til að segja það sem honum býr í brjósti. Hann er ekki að fegra sjálfan sig eða reyna að ganga í augun á neinum. Hann er gallaður eins og aðrir menn og það finnst honum bara eðlilegt og ekkert til að fela. Hann talar frá hjartanu og ekki er allt fagurt sem hjartað geymir.

Ég horfði líka á viðtal við Helle Helle um þau skáld sem hafa haft áhrif á hvernig hún skrifar. Nefndi hún Thomas Mann með sínar sérkennilegu lýsingarorðssamsetningar; tvö lýsingarorð samtengd með bandstriki: kald-leiðinlegur, vond-sterkur… og Virginia Woolf með sína sérkennilegu notkun á tíma. Kona gengur og heyrir kirkjuklukkur hringja og næsti kafli byrjar þar sem önnur kona gengur aðra götu og heyrir sömu kirkjuklukkur hringja; sami tími önnur sena.

Og ég horfði líka á Peter Høeg sem sagði frá þeirri gæfu að hann skyldi hafa skrifað Lesið í snjóinn þá miklu metsölubók, og þá frægð og auð sem hann eignaðist. Hann naut þess að hafa marga lesendur og fannst hann heimsins hamingjusamasti höfundur. Hann naut þess líka að verða efnahagslega sjálfstæður það sem eftir var ævinnar því Lesið í snjóinn seldist svo vel að hann þurfti ekki lengur að hugsa um að afla fjár. Síðan hann skrifaði Lesið í snjóinn hefur lesendum farið sífækkandi með hverri bók og hann nýtur þess líka að hafa það frelsi að sjá lesendur sína flytja sig frá honum til annarra yngri höfunda. Hann snýr lesendaflóttanum til einhvers góðs.

Ég hafði gaman af viðtölunum við rithöfundana sem öll eru unninn af Louisiana Channel og eru á dönsku en textuð á ensku. Louisiana er stórkostleg menningarmiðstöð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.