Espergærde. Stöðvaður á hlaupi

„Það skemmtilega við þetta allt er að hreinlega ekkert gerist,“ sagði maður sem ég kannast við, eftir hann hafði með ákveðnum líkamstilburðum náð að stöðva mig í miðju langhlaupi. Göturnar hér í bænum voru í morgun þaktar ökladjúpum blautsnjó svo sjálfur hlaupagjörningurinn var því ekki sérlega skemmtilegur. Ég varð strax votur í fæturna og hljóp hægt eins og belja því ég fékk ekkert grip þegar ég spyrnti frá vegna hálkunnar.

En maðurinn sem stöðvaði mig, þvert gegn vilja mínum, vildi fá stutt spjall því eins og hann sagði hitti hann ekki lifandi sálu. Allt hans líf fór víst fram inni í honum sjálfum og inni í eigin húsi. Og þótt hann orðaði það svo að þetta væri skemmtilegt var það víst sagt í kaldhæðni. Ég uppgötvaði ekki kaldhæðnina fyrr en ég hafði náð að einbeita mér að samtalinu því ég var lafmóður og hafði alls ekki ætlað mér að stoppa til að tala. Ég hef alltaf tekið Murakami mér til fyrirmyndar: þegar ég hleyp, geng ég ekki eða stöðva fyrr en ég er kominn í mark.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.