Í gærkvöldi fékk ég senda þessa ljósmynd (sjá fyrir ofan) frá Fúsa ljósmyndara, hirðljósmyndaranum á Bræðraborgarstíg. Ég man vel eftir því þegar myndin var tekin: Ég veit að Fúsi kom upp úr kjallaranum með myndavélina sína á leið út, sneri sér að okkur þremur sem sátum og spjölluðum saman og smellti af. Fyrst hélt ég að ljósmyndin væri frá árinu 2003, í september, en það er hún ekki. Myndin setti af stað langa hugsanakeðju. Mér til undrunar kom fyrst upp í hugann röð hrapalegra mistaka sem ég gerði bæði í útgáfunni og prívat og persónulega.
Á myndinni eru Judith Hermann, þýsk skáldkona, ég sjálfur, þá útgefandi Bjarts á Íslandi og maðurinn í lopapeysunni er Jón Karl Helgason minn stórkostlegi samstarfsmaður. Judith var elskuleg kona, gáfuð og sjarmerandi. Við höfðum gefið út smásagnasafn hennar, Sumarhús seinna, árið 2001 og kom bókin út í ágætri ritröð sem kallaðist neon og var helguð nýjum, spennandi útlenskum skáldverkum.
Ég veit ekki hvort neon sé lengur til sem útgáfuröð á Íslandi. En bæði Angústúra og Benedikt hafa tekið upp á því að gefa út þýddar bækur og setja þær í bókaklúbb. Og svo er til Ugluklúbbur Máls og menningar. (Nú kemur svigi og aukasetning því mér varð allt í einu svo skemmt þegar ég skrifaði þessi orð. Ég var á Íslandi sl. desembermánuð og heyrði nánast í hvert sinn sem ég keyrði bíl með opið útvarp auglýsingar frá bókaforlaginu Angústúru sem hljómuðu einhvern veginn svona: „Bækur í áskrift, Angústúra“. Þetta þótti mér rosalega skrýtin auglýsing og fyndin. Í byrjun árs 2021 hóf Ugluklúbburinn litla auglýsingarherferð fyrir Uglubókaklúbbinn sinn þar sem þau auglýstu að hægt væri að fá Uglubækurnar heimsendar í áskrift. Hallgrímur Helgason, hinn snjalli maður (hann er rithöfundur og áhrifavaldur á samfélagsmiðlum), brást hart við þessari nýju herferð Ugluklúbbsins og birti mynd á Instagram af auglýsingu MM fyrir Ugluklúbbinn og benti á að honum þætti MM hefði stolið hugmynd konu sinnar (Agla, kona Hallgríms og fyrrum samstarfsmaður minn á Bjarti, rekur Angústúru) um „bækur í áskrift“ auk þess nefndi hann að MM stundaði það að stela fleiri, ótilgreindum, hugmyndum Angústúru. Þegar ég sá Instagram-færslu Hallgríms gat ég ekki annað en flissað pínulítið. En þetta var útúrdúr.)
Eftir nánari skoðun á ljósmyndinni í gærkvöldi sá ég að hún gat ekki verið tekin í septembermánuði því á borðinu fyrir framan okkur er einhvers konar jólaskreyting, jólaepli í körfu og fyrir utan sést að snjór er á bílunum á bílastæðinu. Þá mundi ég að Judith hafði verið í Gunnarshúsi um eins mánaðar skeið í desember árið 2002. Hún fékk lánaðan Bjartsbílinn, smábíl af gerðinni Mazda 323. Í janúarbókhaldi Bjarts ársins 2003 er að finna hraðasekt fyrir brot á hraðatakmörkum í Hvalfjarðargöngum í desember árið 2002. Þar var Judith á ferð.
Á borðinu fyrir framan okkur eru Lucky Strike sígarettur skáldkonunnar og hún hefur setið lengi því í öskubakkanum eru þrír sígarettustubbar. Ég reyki ekki. Jón Karl reykir ekki. Á diskum er bakarísbrauð sem Judith hefur fært okkur. Bókin hans Jóns Karls, Næturgalinn, er líka á borðinu, eins og kökudiskarnir, og augljóst að skáldskapur Jóns Karls hefur borið á góma. Gula kaffivélin, sem hvarf af skrifstofunni skömmu síðar, og inn á heimili Söndru, hefði haft gott af smáhreinsun. Ég tek eftir að á henni eru gamlar kaffislettur.
En það sem mér fannst eftirtektarverðast á ljósmyndinni er svipurinn á sjálfum mér. Sjá þennan síðhærða, bugaða mann sem reynir að bera sig vel. Yfir útgefandanum eru ljósmyndir af starandi augum höfunda Bjarts. Árið 2002 var ekki mitt ár, það sé ég greinilega og það veit ég líka.
ps. Í mars árið 2002 sleit ég samstarfi sem Bjartur hafði átt við bókaforlagið Sölku. Samstarfið var ekki góð ákvörðun af minni hálfu og er þreytan í andliti útgefandans að pínulitlu leyti afleiðing þessa langa samstarfsárs 2001 (Margt annað og stærra skýrir ljósmyndina betur en samstarfið við Sölku, ég nefni það bara í framhjáhlaupi). Í tilefni af ljósmyndinni hér að ofan fletti ég upp á bókaforlaginu Sölku á internetinu (til að fá staðfest að samstarfinu hefði lokið ári 2002) og mér til mikillar furðu er til lærð háskólaritgerð um Sölku og samstarfið við Bjart. Ég segi nú bara eins og Styrmir eftir að hafa gluggað í þá ritgerð: „hólý-mólý“.
pps. það er líka til háskólaritgerð (hana gluggaði ég líka í) um neon klúbbinn og alla þá léttúð sem einkenndi starf Bjarts á þeim árum sem ég stýrði því skrýtna fyrirbæri. Ég hef nú verið, og er, meiri skrúfan.
ppps. Það er satt að segja svolítið yfirþyrmandi að hugsa til baka til þessara síðustu ára minna á Íslandi, ég segi bara aftur eins og Styrmir: „hólý-mólý“.