Espergærde. Heimsfrægðin er via Makedóníu

Hver dagur hefur sitt líf. Í gær lenti geimflaug á mars. Ég er ekki viss um hvaða erindi geimvísindamennirnir eiga á Mars með þessu ferðalagi. Er verið að leita að lífi? Er kannski verið að undirbúa komu Elon Musk? Er búið að vara Mars-búanna við komu þessa fólks? Hugsa sér ef Joe & the Juice setti þar upp sinn sölubás, sitt póstmóderniska helvíti með klúbbmúsik og ofurhressum derhúfudrengjum. Er slík tilbreyting kannski velkominn á Mars?

Já, hver dagur hefur sitt líf og áðan fékk ég sendan undirritaðan bókasamning við Makedóníu. Heimsfrægðin er via Makedóníu, hugsaði ég með mér. Ég er glaður að Makedónía hafi húmor fyrir Millu og Guðjóni G. Georgssyni. Mér finnst það passa svo vel við þessar bækur mínar og alveg í takti við innihaldið – fyrst einhver hefur áhuga á að þýða þær – að þær lendi í Norður-Makedóníska lýðveldinu. Þangað ætla ég í höfundarferðalag, til landsins þar sem hlutfallslega flestir rithöfundar deyja á bókmenntahátíðum og þar varðveita skipuleggjendur excel-skjal yfir fjölda dauðsfalla hjá gestkomandi rithöfundum pr. ár og gefa út línurit þar um; X-ásinn er tímaás (ár) og fjöldi dauðra rithöfunda er á Y-ás.

Í gær horfði ég á hundrað ára gamla þýska konu segja frá lífi sínu. Hún var ritari Goebbels þegar hún var ung kona og sat í nokkur ár í fangelsi fyrir það. Hún talaði fallega þýsku, mjög hægt, skýrt og það var sterkur hljómur í rödd gömlu konunnar. Andlitið var hrukkótt eins og langþurrkuð daðla. Þótt langt sé síðan ég bjó í Þýskalandi skildi ég hvert orð. Ég gat þó ekki komist hjá því að lesa danska undirtextann sem fylgdi. Svo var þetta þýsk-danska-tungumálamix þýtt yfir á íslenska hugsun í höfðinu á mér. Ég svaf óvenju vel og þegar ég vaknaði í morgun var ég viss um það var vegna allrar heilaorkunnar sem ég hefði notað í gærkvöldi við að vinna úr orðunum; hljómmiklu þýskunni, danska lestextanum og íslenska úrvinnslutextanum.

Hver dagur hefur sitt líf og framundan er föstudagur. Ég veit ekki hverju það breytir að nú er ekki lengur fimmtudagur. Föstudögum fylgir innbyggð eftirvænting eða þannig líður mér. Eitthvað er að fara að gerast. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.