Ég finn huggun í setningunni að hver dagur hafi sitt líf. Hver dagur hefur sitt líf og ég get ef ég vil gleymt lífinu í gær og byrjað nýtt líf í dag. Í gær fékk ég til dæmis gefins nýja hlaupaskó sem gladdi mig mjög mikið og þá tek ég með mér inn í mitt nýja líf í dag. Sus hafði keypt þá handa mér þegar hún hafði séð götin á gömlu hlaupaskónum. Svona er hugsað vel um mig. Í gær fékk ég líka gefins tvö ný viðurnefni sem ég get líka tekið með mér: Fyrrum skólastjóri fiðrildaskólans, sem er ágætt starfsheiti til að skreyta sig með þótt viðurnefnið hafi sennilega ekki verið meint sem upphafning eða heiður. Hitt viðurnefnið sem ég fékk líka gefins í gær var að ég væri hinn „nýi Jakob Bjarnar“. Það viðurnefni (ég kann að vísu ómeðvitað ekki að meta það) á ég erfiðara með að skilja því ekki veit ég fyrir hvað Jakob Bjarnar stendur á Íslandi þessi misserin. Ég man eftir honum sem umdeildum blaðamanni hjá DV fyrir mörgum árum en í dag veit ekkert um manninn. En ég hef alltaf haft aðra sjálfsmynd en að ég líkist blaðamanni á DV en kannski þarf ég að endurskoða það viðhorf. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd og umberið og elskið hvert annað.
En þetta fékk ég nú gefins í gær, þrjár gjafir. Og í morgun hljóp ég á nýju skónum mínum. Þeir voru góðir. Ég fann að þeir fjöðruðu betur undir fótum mér en gömlu skórnir og ég flaug áfram eftir götum bæjarins. Það er vor í lofti, hitinn kominn yfir frostmark og sólin farin að kíkja niður á milli skýjanna. Snjórinn og slabbið, sem hefur gert hlaupin erfiðari, er nú horfið. Á hlaupunum í morgun tók ég fram úr eldri herramanni á Strandvejen og hann hrópaði glaðlega á eftir mér að hann öfundaði mig af hlaupahraðanum. Ég varð pínulítið upp með mér að fá slíkt klapp, en ég gat þó ekki alveg tekið hrósið til mín því mér fannst ég ekki hlaupa sérlega hratt. Kannski hljóp herramaðurinn bara hægt.
En það sem ég hafði ætlað að skrifa í dag var allt annað en vangaveltur um misskilda sjálfsmynd og hlaupahraða. Ég hafði valið saklaust efni. Sú frétt hefur nefnilega spurst út að Gallimard forlagið franska hefði fundið hinn heilaga Gral. Hvorki meira né minna. Í vikunni sem er að líða tilkynntu Gallimard-starfsmennirnir að nýtt óútgefið verk eftir Marcel Proust, franska heiðursrithöfundinn, yrði gefið út á þeirra vegum. Titill bókarinnar, er Hinar 75 blaðsíður. Marcel Proust á að hafa skrifað verkið árið 1908 eða um það leiti sem hann samdi meistaraverk sitt Leitina að glötuðum tíma, sem mörgum þykir ein af mikilvægustu bókum heimsbókmenntanna.
Skáldverkið, Hinar 75 blaðsíður, var talið glatað og margir fremstu bókmenntasögumenn heimsins hafa í áratugi gert ítrekaðar tilraunir til að finna verkið. Þessir textar voru upprunalega í stóru safni skjala í eigu hins látna forleggjara Bernard de Fallois. Það var einmitt við leit í dánarbúi forleggjarans sem skjölin fundust og þar á meðal verkið Hinar 75 blaðsíður.
Hvort skáldverkið er í raun og veru hinn heilagi Gral kemur væntanlega í ljós þann 18. mars þegar bókinni verður dreift í franskar bókaverslanir.