Ég hikaði nokkur andartök þegar ég horfði á greinar trjánna í garðinum svigna undan vindinum. Áform mín um að fara út og hlaupa nokkra kílómetra voru skyndilega ekki eins sjálfsögð og þegar ég vaknaði og klæddi mig í viðeigandi hlaupaföt. Mér finnst leiðinlegt að hlaupa í roki – þetta er auðvitað bara aumingjagangur – en þannig hef ég það. Þrátt fyrir hikið hljóp ég samt af stað.
Venjulega hugsa ég ekki margt af viti þegar ég berst áfram á hlaupastígnum í kappi við tímann. Það sem fer í gegnum hugann er nær eingöngu tengt næstu eitt hundrað metrunum en í dag var hugurinn ekki við sjálft hlaupið. Kannski var það vegna þess að ég var óvenju léttur á mér. Ég flaug áfram án þess að verða móður og það setti ég í samband við pizzaát mitt í gærkvöldi. Ég er ekki mikill hveitimaður en það er greinilegt að ef ég borða hveiti kvöldið áður en ég hleyp er ég mun léttari á mér. Ég hef aukaorku. En sem sagt ég þurfti ekki svo mikið að einbeita mér að hlaupinu og því hvarflaði hugurinn að öðru sem hvílir á mér.
Það er ekki vinsælt að fara gegn stemmningunni í landinu eða hinum almennu skoðunum. Hin almenna venja er nú að hugsa fyrst og fremst um vinsældir sínar fremur en að leggja áherslu á hvað sé gott fyrir samfélagið eða heiminn. En ég kæri mig hreint ekki um fólk sem hleypur á eftir því sem er vinsælt hverju sinni. Um þetta hugsaði ég á hlaupunum því þetta hefur sótt á huga minn undanfarið. Grimmilegar refsingar á samfélagsmiðlum; háð, persónuleg niðurlæging er hin nýja gerð ritskoðunar sem nú eru stunduð gagnvart þeim sem leyfa sér að ganga gegn stemningunni í landinu og hafa sína eigin sannfæringu.
ps. Ég er kominn með nýtt hlaupaapp sem heitir STRAVA og þar eru gefin upp hraðamet á ákveðnum hlaupaleiðum. Í dag sló ég hraðametið upp Bakkegårdsvejbrekkuna og í fyrradag sló ég metið á hlaupaleiðinni milli Snekkerstenhavn og strætóskýlis við bæjarmörkin milli Espergærde og Snekkersten.