Hið góða efni

Undanfarna daga hef ég setið yfir þýðingu á langri bók, langri glæpasögu eftir Hjorth Rosenfeldt. Þetta er sænskt höfundapar og skrifar undir þessu höfundanafni: Þeir félagar hafa skrifað í sameiningu margar glæpasögur (og sjónvarpsseríur) og hafa góð tök á handverkinu  til að búa til spennusögu. Og ég þýði og þýði (frá morgni til kvölds) og það sér bara ekki fyrir endann á þýðingarverkefninu. Þeir halda áfram að rannsaka hina dularfullu atburði, rannsóknarlögreglumennirnir í bókinni.

En hvað um það, ég held áfram, tíminn líður og ég kláraði um daginn að lesa bók Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Svínshöfuð, sem ég hafði gefist upp á fyrir nokkrum mánuðum. Fyrsti hluti bókarinnar varð mér erfið hindrun, ég hnaut og lagði bókina frá mér, tók hana fram að nýju, lagði hana aftur frá mér. Mig langaði að klára bókina og eftir því sem leið á söguna tókst henni betur að fanga mig; sérstaklega síðasti hluti bókarinnar. Og nú les ég aðra bók Samlede værker eftir hina ungu Lydiu Sandgren, sem ég hafði líka lagt frá mér, ekki af því mér leiddist hún, heldur er bókin svo þykk (8oo blaðsíður) að ég ákvað að taka hana ekki með í ferðalag til Íslands (of þung fyrir handfarangur minn) þegar ég var þar í apríllok og byrjaði því á öðrum bókum. Ég hef tekið upp þráðinn að nýju og skemmti mér yfir að lesa þessa löngu sögu um forleggjarann Martin og dóttur hans og hið dularfulla hvarf eiginkonunnar.

Í gær hlustaði ég á fyrirlestur á tölvunni minni í fyrirlestraröð sem The Guardian stendur fyrir á internetinu. Það var líbanska skáldið Rahid Alamaddine sem flutti erindi um sjálfsmynd (identity). Ég hef ekki sérstakan áhuga á sjálfsmyndarspurningunni heldur frekar á skáldinu sjálfu sem mér hefur alltaf þótt uppörvandi félagsskapur. Hann skrifaði bók sem heitir Hakawati og ég gaf hana út hér í Danmörku og var stoltur af því. Þetta var því miður ekki góður fyrirlestur hjá Rahid og mér fannst ég ekki græða neitt sérstakt á að hlusta á skáldið. Þetta urðu mér töluverð vonbrigði. Ég hef fundið fyrir því hér í þessu veirufári að erfiðara er að finna atburði sem vekja mann, allt hefur verið lokað, og einhver deyfð og drungi hefur verið yfir. En ég finn hvað það er mér mikilvægt að verða vitni að einhverju sem lyftir og ég geri mér betur og betur grein fyrir því hversu mikilvægt það er að vera virkur í leitinni að hinu góða efni annars gerist fátt sem ekkert.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.