Félagsmaður án félags

Klukkan 8:34 í morgun flugu nýjar hugsanir í gegnum hugann. Ég segi nýjar því mér hefur aldrei fyrr brætt með mér hvort ég ætti að gerast félagsmaður í Rithöfundasambandi Íslands en sú hugsun kom allt í einu til mín og ég leit á klukkuna; 8:34 stóð á úrskífunni. Það tók mig þó ekki margar mínútur að ýta hugsuninni frá mér. Ég er ekki félagsmaður í eðli mínu og ég er löngu búinn að sætta mig við það.

Þegar ég starfaði sem útgefandi á Íslandi og stýrði Bjarti var ég lengi utan Félags íslenskra bókaútgefenda og gerði þáverandi formaður félagsins, Sigurður heitinn Svavarsson, margar vinsamlegar tilraunir til að véla mig inn í samtökin. Ég man að hann bauð mér, barnungum og fátækum manni, út að borða á fínum veitingastað til að ræða hvers vegna ég vildi ekki ganga til liðs við félagið og hvað hann gæti gert til að greiða leið mína inn. En ég lét mig ekki og sagði honum að nafnið á forlaginu væri ekki tilviljun. Bjartur. Ég geng einn, ég fylgi konunni með ljósið, sagði ég. Sigurði var ekki skemmt. Á endanum lét ég mig og þá hafði mér verið boðið þrisvar sinnum út að borða af félaginu. Það var ekki vegna þess að ég hafði fengið svona margar ókeypis máltíðir að ég gekk í samtökin. Það nægði að höfða til samkenndar minnar og félagslegrar ábyrgðar, enda var Bjartur þá orðið stórt forlag og gaf út næstflest skáldverk á Íslandi á eftir Eddu – miðlun.

Sennilega verð ég aldrei félagsmaður Rithöfundasambands Íslands þótt ég hafi fengið útgefnar heilar þrjár bækur þegar nýjast bók mín (Handbók gullgrafarans) kemur út í haust. Ég get ekki fengið mig til að líta svo á að starfsheiti mitt sé nú rithöfundur. Mér finnst starfsheitið ekki passa við mig, sennilega er það of fínt fyrir slúbbert eins og mig. Kannski ætti ég frekar að hasla mér völl á nýjum vettvangi og gerast agent fyrir rithöfunda. Mér þætti ekki erfitt að kalla mig agent ef ég stofnaði agentur. Slík nýlunda mundi sannarlega valda usla hjá frekar kyrrstæðum forlögum á Íslandi. Á Íslandi er ekki hefð fyrir að agentar taki að sér að semja fyrir höfunda eins og tíðkast nánast alls staðar annars staðar í heiminum og hefur sú þróun sennilega bætt kjör rithöfunda (sérstaklega þeirra sem selja bækur í stóru upplagi) og gert líf forlagana erfiðara og tilveruna meira krefjandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.