Í kvöld fer ég í afmæli hjá einum af vinum mínum hérna í Danmörku. Ég þarf að þvælast alla leið út á Amager til að taka þátt í veisluhöldunum en ég læt það ekki aftra mér og tek lestina suður Sjáland og alla leið út til Amager til að fanga þessum góða manni. Í morgun var viðtal við hann í blöðunum í tilefni afmælisins og þar sá ég – það sem ég vissi svo sem – að hann hefði 8 ára heillast af kvikmyndagerð og byggði sér kvikmyndavél (eða eftirlíkingu) úr Lego kubbum. Ekki leið langur tími þar til hann hafði fengið 8mm kvikmyndavél og eftir það hefur hann búið til kvikmyndir.
Ég heyrði um annan mann sem varð svona gersamlega heillaður af ritstörfum að þegar hann var 8 ára sat hann að minnsta kosti þrjá klukkutíma eftir skóla og skrifaði. Sumir stunda tónlistarnám svo ungir, læra á píanó eða fiðlu en hann, Truman Capote, stundaði ritstörf og hélt áfram að skrifa fram til dauðadags. Fyrstu bók sína fékk hann þó ekki útgefna fyrr en hann var orðinn 24 ára en ferill hans náði hátindi sínum árið 1965 (þá var hann 41 árs) þegar bók In Cold Blood kom út.
En ég byrjaði einmitt að lesa bók Truman Capote In Cold Blood í gær. Ég hef aldrei lesið neitt eftir þennan mikla bandaríska rithöfund. Það var eiginlega Sölvi sem fékk mig til að taka þessa Capote bók fram, því hann var svo rosalega hrifinn.
In Cold Blood er ekki skáldsaga heldur einskonar löng umfjöllun um hroðalegt morð á fjögurra manna fjölskyldu í Kansas; Clutters fjölskyldunni. Þegar bókin kom út vakti hún samstundis gífurlega athygli enda talin mikið afrek. Höfundurinn notaði heil sex ár (minnispunktarnir fylltu yfir 8000 blaðsíður) í að skrifa bókina. Hann ferðaðist um svæðið þar sem atburðirnir áttu sér stað, endurskapaði atburðarrás morðanna, tók viðtöl við morðingjana og aðstandendur hinna myrtu svo úr varð mikil stúdía á glæpum og glæpamönnum.
En ég er bara rétt byrjaður og ég sé strax að þessi maður hefur byrjað að skrifa þegar hann var átta ára.
Þegar ég var átta ára spilaði ég fótbolta að minnsta kosti þrjá klukkutíma á dag. Minn stórfenglegi knattspyrnuferill var hafinn sem náði sennilega hámarki þegar ég var 10 ára og valinn aðalmarkvörur 5. flokks í Fram.